Samkvæmt Fimleikasambandi Íslands er von á yfir hundrað Íslendingum til Lúxemborgar um helgina þegar úrslitin á Evrópumeistaramótinu í fimleikum fara fram.

Þrátt fyrir Covid-faraldurinn var þó nokkuð af stuðningsfólki í höllinni á EM í fyrra en má búast við enn meiri látum frá íslenska stuðningsfólkinu á föstudaginn og laugardaginn.

Karlalandslið Íslands nældi heldur óvænt í silfurverðlaun á mótinu í fyrra á sama tíma og kvennaliðið varð Evrópumeistari. Landsliðin mættu öll til Lúxemborgar á mánudagskvöldið og fóru fyrstu æfingar unglingaliðanna fram í keppnishöllinni í dag.

Stúlkna­lið Ís­lands fékk silfur á mótinu í fyrra eftir harða bar­áttu við sænska landsliðið um gullið en Svíarnir enduðu á að vinna með minnsta mögulega mun, 0,1 stigi. Það verður því áhugavert að fylgjast með undanúrslitunum í dag til að sjá hvernig staðan er á liðunum í ár.

Vegna faraldurs Covid-19 hefst titil­vörn kvennalandsliðsins einungis níu mánuðum eftir sigurinn fræga í fyrra. Mótið fer vanalega fram á tveggja ára fresti.

Fréttablaðið/Stefán Þór Friðriksson

Þónokkrar breytingar hafa orðið á sigurliði kvennaliðs Íslands en liðið lenti í miklu áfalli degi fyrir brottför þegar Kolbrún Þöll Þorradóttir, stigahæsti keppandi liðsins í fyrra, sleit hásin á síðustu æfingu fyrir mót. Andrea Sif Pétursdóttir, fyrirliði liðsins, segir að liðið ætli sér auðvitað að reyna að verja titilinn.

„Það er markmiðið en við erum líka með nýtt lið þannig að við þurfum að passa okkur að stilla væntingarnar aðeins en við stefnum samt á toppinn,“ segir Andrea.

„Stemmingin í hópnum er mjög góð en við eigum eftir að sjá betur hvernig við stöndum eftir æfingadaginn á morgun,“ sagði Andrea fyrir utan keppnishöllina í gær.

Spurð um liðsbreytingarnar segir Andrea að stelpurnar sem nú eru að koma inn í landsliðið séu með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur.

„Við erum með nokkrar sem eru að koma upp úr unglingaliðunum frá því í fyrra. Þær eru allar að keppa á sínu öðru stórmóti og sumar hafa farið á fleiri. Þannig að það er reynsla í öllum,“ segir hún.

Andrea Sif er mætt aftur í liðið eftir að hafa sjálf slitið hásin á EM í fyrra í síðasta stökkinu sínu á mótinu. Það var með öllu óvíst hvort hún myndi ná aftur inn í landsliðshópinn fyrir mótið aðeins níu mánuðum eftir að hafa slitið hásin en hér er hún. Hún er þó í takmörkuðu hlutverki að þessu sinni þar sem hún mun ekki stökkva með liðinu.