Aron Guðmundsson skrifar frá Lundúnum.

Búast má við fjölmennum hópi Íslendinga í O2-höllina í Lundúnum í kvöld þegar að Gunnar Nelson snýr aftur í búrið á bardagakvöldi UFC og mætir Takashi Sato í veltivigt.

Heimildir Fréttablaðsins herma að allt að 500 Íslendingar verði í höllinni í kvöld að hvetja Gunnar áfram.

Gunnar hefur ekki barist í rúm tvö ár en mun í kvöld keppa sinn fyrsta bardaga á nýjum 5 bardaga samningi hjá UFC sem hann skrifaði undir fyrir nokkrum mánuðum.

Einnig má gera ráð fyrir því að Gunnar hljóti mikinn stuðning frá heimamönnum en hann hefur verið afar vinsæll á meðal áhugafólks um UFC.

Bardagakvöldið sjálft hefst klukkan 17:30 í dag en ráðgert er að aðalhluti bardagakvöldsins hefjist klukkan 20 í kvöld. Bardagi Gunnars er sá þriðji í röðinni þar og samkvæmt frétt MMA-frétta má gera ráð fyrir því að Gunnar stigi inn í búrið um klukkan 21.

Bardagakvöldið verður í beinni útsendingu á Viaplay þar sem að Pétur Marínó Jónsson, ritstjóri MMA-frétta mun lýsa herlegheitunum í beinni frá O2-höllinni.