Phil Foden er kominn aftur inn í lið Englands og fær tækifærið í byrjunarliðinu gegn Íslandi í lokaleik liðanna í Þjóðadeildinni á Wembley í kvöld.

Foden var ásamt Mason Greenwood rekinn úr enska landsliðshópnum eftir að hafa brotið sóttvarnarreglur.

Leikmennirnir buðu íslenskum stúlkum upp á hótelherbergi kvöldið eftir leik og brutu með því reglur enska landsliðsins og Íslands um sóttkví.

Markahrókurinn Harry Kane er á sínum stað í fremstu röð enska liðsins og nýtur liðsinnis Jack Grealish, Foden og Bukayo Saka við að brjóta niður vörn íslenska liðsins.