Skotinn David Moyes er orðaður við Everton á ný í dag, sex árum eftir að hann yfirgaf félagið til að taka við Manchester United af Sir Alex Ferguson.

Moyes sem æfði og lék með Tý í Vestmannaeyjum sem ungur leikmaður er án starfs eftir að West Ham kaus ekki að framlengja samning Moyes fyrir átján mánuðum síðan.

Pressan eykst á Marco Silva, núverandi knattspyrnustjóra Everton eftir enn eitt tapið um helgina. Everton er fjórum stigum frá fallsæti eftir þrettán umferðir og þeirra bíða gríðarlega erfiðir leikir á næstu vikum.

Silva fékk úr nægu fjármagni að ráða í sumar til að styrkja hópinn annað árið í röð en liðið hefur engan vegið staðið undir væntingum í upphafi tímabilsins.

Moyes stýrði liði Everton í ellefu ár og festi liðið í sessi í efri hluta deildarinnar ásamt því að koma Everton í fyrsta sinn í undankeppni Meistaradeildar Evrópu árið 2005 en Villareal kom í veg fyrir að Everton kæmist í riðlakeppnina.