Ríkasti maður Bretlands, Jim Ratcliffe sem hefur undanfarin ár keypt heilmikið landsvæði á Íslandi fékk í dag grænt ljós á að kaupa franska félagið Nice sem leikur í efstu deild.

Franska samkeppniseftirlitið samþykkti kaup Ratcliffe í dag sem ætti að liðka fyrir um kaup Ratcliffe á félaginu.

Hann greiðir kínverskum eigendum félagsins, Chien Lee and Alex Zheng hundrað milljónir evra fyrir Nice sem er metfé fyrir félag í Frakklandi.

Auðkýfingurinn hefur verið talsvert til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum undanfarin ár eftir að hafa keypt fjölmargar jarðir á Norðausturlandi.

Þá komst Ratcliffe að samkomulagi við Hafrannsóknarstofnun um rannsóknaráætlun til verndar íslenska laxastofninum á dögunum.

Patrick Vieira sem lék áður fyrr með Arsenal stýrir liði Nice og hefur Ratcliffe lofað Vieira að hann fái að styrkja liðið all verulega til að koma því í fremstu röð á ný.

Liðin eru sextíu ár síðan Nice vann franska meistaratitilinn sem hefur eytt stærstum hluta síðasta áratugs í höndum PSG eftir að auðkýfingar frá Katar keyptu Parísarliðið.