Íslandsmótið í höggleik í golfi hefst í Grafarholtinu í dag þar sem margir af bestu kylfingum landsins eru mættir til leiks.

Þetta er í fyrsta sinn í tíu ár sem Íslandsmótið fer fram í Grafarholtinu eða síðan Ólafur Björn Loftsson vann titilinn eftirminnilega með mögnuðum endaspretti.

Í karlaflokki eru allir sterkustu kylfingar landsins skráðir til leiks nema sjöfaldi Íslandsmeistarinn Birgir Leifur Hafþórsson sem er ekki skráður í ár.

Þar á meðal eru atvinnukylfingarnir Axel Bóasson sem hefur titil að verja og heimamennirnir Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Haraldur Franklín Magnús og Andri Þór Björnsson.

Í kvennaflokki gátu atvinnukylfingarnir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir ekki gefið kost á sér vegna verkefna erlendis.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er skráð til leiks að verja meistaratitilinn og er ein þriggja í kvennaflokki sem hafa áður landað Íslandsmeistaratitlinum.