Framkonur byrjuðu tímabilið í á sex marka sigri á Selfossi 30-24 á sama tíma og Haukar unnu 27-18 sigur á nýliðum HK í lokaleikjum 1. umferðar í Olís-deild kvenna í kvöld.

Framarar þurftu að horfa á eftir titlinum í Meistarakeppni HSÍ á dögunum en mættu einbeittar til leiks á Selfossi. Leiddu þær með tveimur mörkum í hálfleik en bættu jafnt og þétt við forskotið.

Að vanda var skyttan Ragnheiður Júlíusdóttir afar öflug í kvöld og skilaði sjö mörkum í sex marka sigri gestanna. Steinunn Björnsdóttir bætti við sex mörkum en hjá heimakonum var Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir atkvæðamest með átta mörk.

Í seinni leik dagsins tóku nýliðar HK á móti Haukum sem urðu á dögunum Meistarar meistaranna eftir sigur á Fram. Hafnfirðingar spiluðu öflugan varnarleik og leiddu 13-7 í hálfleik.

Gekk þeim vel að loka á alla aðra leikmenn en Sigríði Hauksdóttur sem var með níu mörk en næst markahæsti leikmaður HK í kvöld var með tvö mörk.

Maria Ines Da Silva Pereira og Berta Rut Harðardóttir voru markahæstar í liði Hauka með átta mörk hvor.