Íslenska karlalandsliðið í handbolta laut í lægra haldi, 29-27, þegar liðið sótti Litáen heim til Vilnius í dag. Þar með héldu Litáar lífi í von sinni um að komast í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Slóvakíu og Ungverjalandi í janúar á næsta ári.

Það var slæm byrjun sem varð íslenska liðinu að falli en eftir tæplega 20 mínútna leik hafði Ísland einungis skorað fjögur mörk og staðan var 11-4 Litáen í vil.

Ísland lagaði stöðuna áður en fyrri hálfleikur var liðinn og staðan var 13-9 fyrir Litáa í hálfleik. Minnstur varð svo munurinn eitt mark en í stöðunni 24-23 fór að síga á ógæfuhliðina hjá íslenska liðinu.

Tapaðir boltar í seinni bylgju hraðaupphlaupum og slakur varnarleikur varð Íslandi að falli en liðið var langt frá sínu besta í þessum leik. Íslenska liðið tapaði boltanum 13 sinnum í leiknum.

Fari Portúgal með sigur af hólmi á móti Ísrael í hinum leiknum í næst síðustu umferð riðilsins er Ísland öruggt með sæti sitt í lokakeppni Evrópumótsins..

Mörk íslenska liðsins: Aron Pálmarsson 8, Bjarki Már Elísson 6, Ólafur Andrés Guðmundsson 4, Sveinn Jóhannsson 3, Viggó Kristjánsson 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Ómar Ingi Magnússon 2.

Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 9 og Viktor Gísli Hallgrímsson 6.

Íslenska liðið mætir Ísrael í lokaumferð undankeppninnar að Ásvöllum á sunnudaginn kemur.