Ísland komst er áfram í góðri stöðu í baráttunni um að komast lokakeppni U-21 árs landsliða í knattspyrnu karla fyrir EM 2021 eftit 2-0 sigur liðsins gegn Lúxemborg í Esch-sur-Alzette í dag. Það voru Ísak Óli Ólafsson og Sveinn Aron Guðjohnsen sem skoruðu mörk íslenska liðsins í leiknum með tveggja mínútna millibili eftir rúmlega hálftíma leik.

Sveinn Aron hefur þar af leiðandi skorað fimm mörk í undankeppninni og er markahæsti leikmaður íslenska liðsins og Ísak Óli kemur næstur á þeim lista með þrjú mörk.

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað: Markmaður: Patrik Sigurður Gunnarsson. Vörn: Kolbeinn Birgir Finnsson, Ari Leifsson, Ísak Óli Ólafsson, Alfons Sampsted. Miðja: Alex Þór Hauksson, Andri Fannar Baldursson (Willum Þór Willumsson), Kolbeinn Þórðarson (Ágúst Eðvald Hlynsson). Sókn: Ísak Bergmann Jóhannesson (Bjarki Steinn Bjarkason), Sveinn Aron Guðjohnsen (Kristófer Kristinsson), Valdimar Þór Ingimundarson (Hákon Arnar Haraldsson).

Ítalía og Írland eru á toppi riðilsins með 16 stig hvort lið og Svíþjóð og Ísland koma þar á eftir með 15 stig. Írar og Svíar hafa spilað átta leiki á meðan Ítalir og Íslendingar eru búnir með sjö leiki.

Í næstu umferð undankeppninnar fer fram toppslagur Írlands og Íslands en sá leikur verður leikinn ytra fimmtudaginn 12. nóvember. Íslenska liðið mætir svo Armenum á útivelli þriðjudaginn 17. nóvember. Þá á Ísland eftir eftir að mæta Ítalíu á heimavelli en leik liðanna sem spila átti á föstudaginn síðasta var frestað vegna kórónaveirusmita í herbúðum ítalska liðsins.

Ísak Óli Ólafsson kom Íslandi yfir með þriðja marki sínu í undankeppninni.
Fréttablaðið/Valli