Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta bar sigurorð af Dönum eftir vítaspyrnukeppni, 5-4, í leiknum um 9. sætið á Algarve-mótinu í Portúgal í kvöld. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1. Hlín Eiríksdóttir jafnaði metin á 70. mínútu.

Þetta var annar leikur Íslands og Danmerkur á mótinu en liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik riðlakeppninnar.

Sanne Troelsgaard-Nielsen kom Dönum yfir á 63. mínútu en sjö mínútum síðar jafnaði Hlín metin með skalla eftir hornspyrnu Hallberu Gísladóttur. Hlín er fyrsti leikmaðurinn sem er fæddur á þessari öld sem skorar fyrir íslenskt A-landslið í fótbolta.

Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og því þurfti að grípa til vítakeppni. Þar skoruðu Íslendingar úr öllum fimm spyrnum sínum en Sonný Lára Þráinsdóttir varði eina spyrnu Dana. Ingibjörg Sigurðardóttir, Rakel Hönnudóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Agla María Albertsdóttir og Andrea Rán Hauksdóttir skoruðu úr spyrnum Íslands.

Íslenska liðið getur vel við árangurinn og frammistöðuna á Algarve-mótinu unað. Íslendingar gerðu jafntefli við Dani og Hollendinga, liðin sem mættust í úrslitaleik EM í fyrra, og fengu aðeins eitt mark á sig í þeim leikjum. Eina tapið kom gegn Japan.