Ísland vann þægilegan 4-1 sigur þegar liðið lék við Liechtenstein í þriðju umferð í undankeppni HM 2022 í Vaduz í kvöld. Þetta eru fyrstu stig Íslands í undankeppninni en íslenska liðið hafði beðið ósigur í sjö síðustu leikjum sínum í öllum keppnum fyrir þennan sigur.

Íslenska liðið braut ísinn á 12. mínútu leiksins en þá unnu bakverðir liðsins saman og bjuggu til mark. Hörður Björgvin Magnússon sendi góða fyrirgjöf inn á vítateig Liechtenstein þar sem Birkir Már Sævarsson var staddur og stangaði boltann í netið.

Þetta er þriðja landsliðsmark Birkis Más sem komst í kvöld upp að hlið Ragnars Sigurðssonar sem næst leikjahæsti leikmaður í sögu landsliðsins með 97 leiki. Þá félaga vantar sjö leiki til þess að jafna Rúnar Kristinsson sem er leikjahæstur.

Birkir Már virðist kunna vel við að mæta Liechtenstein en tvö af þremur landsliðsmörkum hans hafa komið gegn liðinu. Þriðja markið kom svo í leik gegn Belgíu í Þjóðadeildinni síðasta haust.

Birkir Bjarnason tvöfaldaði svo forystu Íslands skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Aron Einar Gunnarsson sendi þá boltann fyrir. Arnór Ingvi Traustason skallaði boltann í hlaupaleiðina fyrir Birki sem skilaði boltanum í netið.

Þetta var 14. landsliðsmark Birkis í 95. landsleiknum hans en miðvallarleikmaðurinn er fjórði leikjahæsti landsliðsmaðurinn í sögunni. Birkir komst þar með upp að hlið Arnórs Guðjohnsen og Ríkharðs Daðasonar í fimmta sæti á listanum yfir markahæstu leikmenn liðsins.

Fréttablaðið/Getty

Guðlaugur Victor opnaði markareikning fyrir landsliðið

Hjörtur Hermannson sem lék í hjarta varnarinnar hjá íslenska liðinu fékk upplagt marktækifæri eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik en Hjörtur skóflaði boltanum hátt yfir mark Liechtenstein.

Jóhann Berg Guðmundsson, sem tók við fyrirliðabandinu af Aroni Einar Gunnarssyni þegar Aroni Einar var skipt af velli í hálfleik átti fínt skot um miðbik síðari hálfleiks sem fór hárfínt framhjá. Raunar gekk bandið á milli fjögurra leikmanna í leiknum en Birkir Bjarnason og Birkir Már gegnu einnig fyrirliðastöðunni.

Arnór Ingvi var nálægt því að bæta þriðja marki Íslands við þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Kantmaðurinn komst komst þá í fínt færi eftir snotran klobba en skot hans var varið. Arnór Sigurðsson átti skömmu síðar gott skot sem markvöður Liechtenstein varði vel.

Guðlaugur Victor Pálsson skoraði þriðja mark Íslands og sitt fyrsta landsliðsmark þegar hann skallaði boltann í autt markið eftir aukaspyrnu Jóns Dags Þorsteinssonar.

Sveinn Aron Guðjohnsen lék sinn fyrsta A-landsleik í þessum leik en hann leiddi framlínu liðsins fyrsta klukkutímann rúman. Hólmbert Aron Friðjónsson sem leysti Svein Aron af hólmi í fremstu víglínu kom boltanum í netið í uppbótartíma leiksins en þar sem Hólmbert Aron gerði það með hendinni var markið réttilega dæmt af.

Rúnar Már Sigurjónsson sem kom inná fyrir Aron Einar í hálfleik nældi í vítaspyrnu andartaki fyrir leikslok. Rúnar Már fór sjálfur á vítapunktinn og skoraði af feykilegu öryggi og innsiglaði sigurinn.

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað: Rúnar Alex Rúnarsson - Hörður Björgvin Magnússon, Sverrir Ingi Ingason, Hjörtur Hermannsson, Birkir Már Sævarsson - Aron Einar Gunnarsson (f) (Rúnar Már Sigurjónsson '46), Birkir Bjarnason (Jón Dagur Þorsteinsson '73), Guðlaugur Victor Pálsson - Jóhann Berg Guðmundsson (Arnór Sigurðsson '63), Sveinn Aron Guðjohnsen (Hólmbert Aron Friðjónsson '63), Arnór Ingvi Traustason (Ísak Bergmann Jóhannesson '71).

Fyrr í dag höfðu Armenar betur gegn Rúmenum og Norður-Makedónar lögðu Þjóðverja að velli í kvöld. Armenía er þar af leiðandi á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir. Norður-Makedónía og Þýskaland koma þar á eftir með sex stig hvort lið. Rúmenía og Ísland hafa síðan þrjú stig og Liechtenstein vermir botnsætið án stiga.

Arnór Ingvi Traustason lagði upp eitt marka íslenska liðsins í leiknum.
Fréttablaðið/Getty