Íslenska landsliðið í knattspyrnu er úr leik á Evrópumótinu eftir jafntefli gegn Frökkum í Rotherham í kvöld. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Frakkar fara áfram í 8-liða úrslit ásamt Belgum úr okkar riðli.

Ís­lenska lands­liðið átti sann­kallaða mar­traðar­byrjun í leiknum en strax á fyrstu mínútu komust Frakkar yfir með marki frá Mel­vine Malard.

Frakkar héldu presunni á ís­lenska lands­liðinu eftir markið án þess þó að koma inn öðru marki.

Þá svöruðu þær ís­lensku fyrir sig og áttu á­kjósan­leg færi þar sem Svein­dís Jane skallaði boltann meðal annars í slánna eftir horn­spyrnu.

Frakkarnir voru hins vegar sterkari aðilinn í fyrri hálf­leiknum og sýndu oft á tíðum snilli sína með því að opna vörn Ís­lendinga upp á gátt. Fleiri mörk voru hins vegar ekki skoruð í fyrri hálf­leik.

Síðari hálf­leikur var stál í stál þar sem bæði lið fengu á­lit­leg tæki­færi til þess að skora mark. Frakkar komu boltanum til að mynda tvisvar í netið í síðari hálf­leik en bæði mörk voru dæmd af, annað vegna rang­stöðu og hitt vegna þess leik­maður Frakka hand­lék knöttinn í að­draganda marksins.

Ísland fékk hins vegar vítaspyrnu í uppbótartíma eftir að brotið var á Dagnýju Brynjarsdóttur innan vítateigs. Dagný steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi og jafnaði þar með leikinn fyrir Ísland

Því miður náðu ís­lensku stelpurnar ekki að svara fyrir sig með öðru marki eins og þurft hefði til að komast áfram úr riðlinum þar sem Belgar unnu sigur á Ítölum.

Ís­land er því fallið úr leik. Þá er ljóst, miðað við hvernig leikir kvöldsins spiluðust, að allt annað en sigur hefði ekki dugað Ís­landi til þess að tryggja sér sæti í 8-liða úr­slitum.

Stelpurnar okkar gerðu jafntefli í öllum þremur leikjum sínum á mótinu.