Íslenska karlalandsliðið í körfubolta fór upp um þrjú sæti á heimlistanum eftir sigra gegn Finnum og Tékkum í nýafstöðnu landsleikjahléi en Ísland er í 44. sæti á nýja listanum.

Ísland er í 25. sæti af Evrópuþjóðum á listanum en efstu sætin skipa Bandaríkin og Spánn.

Eftir svekkjandi tap gegn Búlgaríu í Laugardalshöll í fyrra tókst Íslandi að vinna síðustu tvo heimaleiki sína í fyrri hluta undankeppni HM 2019 í Kína í síðustu viku.

Fyrir vikið er Ísland í fínum málum í baráttunni um að komast á næsta stig undankeppninnar en Ísland á eftir leiki gegn Finnlandi og Búlgaríu ytra.

Aðeins Búlgaría(51. sæti) í riðli Íslands er fyrir neðan Ísland á styrkleikalistanum en Tékkar (25. sæti) og Finnar (21. sæti) eru töluvert fyrir ofan Ísland þrátt fyrir sigrana um síðustu helgi.

Listann í heild sinni má sjá hér.