Ísland tryggði sér sæti á heimsmeistaramótinu í handbolta karla með því að leggja Litháen að velli, 34-31, í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti á mótinu í Laugardalshöll í kvöld. 

Fyrri leik liðanna lyktaði með 27-27-jafntefli og íslenska liðið vann því einvígið samanlagt 61-58 og verður á meðal þátttakenda þegar mótið verður haldið í Danmörku og Þýskalandi í janúar á næsta ári.

Ísland náði tveimur góðum köflum í leiknum, einum í hvorum hálfleik sem skilaði liðinu þeirri forystu sem dugði til sigurs í leiknum. 

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæsti leikmaður liðsins og Aron Pálmarsson var einkar drjúgur við það að mata samherjá sína með stoðsendingum. Þá átti Björgvin Páll Gústavsson góðan leik í marki íslenska liðsins, en hann varði 15 skot í leiknum. 

Mörk Íslands í leiknum: Guðjón Valur Sigurðsson 11, Aron Pálmarsson 5, Ólafur Andrés Guðmundsson 4, Ómar Ingi Magnússon 4, Theodór Sigurbjörnsson 4, Arnór Þór Gunnarsson 3, Vignir Svavarsson 2, Elvar Örn Jónsson 1.