Ísland hafði betur 96-68 þegar liðið fékk Portúgal í heimsókn í þriðja leik sínum í forkeppni fyrir undankeppni Evrópumótsins 2021 í körfubolta karla í Laugardalshöllina í dag.

Íslenska liðið náði undirtökunum fljótlega í leiknum og leiddi 23-13 þegar fyrsta leikhluta var lokið og jók svo muninn í öðrum leikhluta og var 44-30 yfir í hálfleik.

Leikmenn íslenska gengu á lagið í þriðja leikhluta og forystan var 22 stig 73-45 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Þegar upp var staðið fór Ísland síðan með 96-68 sigur af hólmi.

Vörn íslenska liðsins með Hlyn Elías Bæringsson og Pavel Ermolinski í broddi fylkingar var firnasterk. Sóknarleikurinn þar sem Jón Axel Guðmundsson var fremstur í flokki gekk svo eins og vel smurð vél.

Jón Axel var stigahæstur hjá Íslandi með 22 stig, Hlynur Elías kom þar á eftir með 21 stig, Martin skoraði 19 stig og Elvar Már Friðriksson bætti 10 stigum við í sarpinn.

Ræðst í lokaleiknum hvaða lið fer áfram

Ísland og Portúgal eru eftir þessi úrslit jöfn á toppi riðilsins með tvo sigra og eitt tap og Sviss kemur þar á eftir með einn sigur og tvo tapleiki. Íslenska liðið er á toppnum þar sem liðið vann innbyrðis leiki Íslands og Portúgals með stærri mun.

Einungis efsta lið riðilsins kemst áfram í undankeppnina en það mun ráðast í lokaleik riðilsins sem verður á milli Sviss og Íslands á miðvikudaginn kemur hvaða lið mun spila í undankeppninni og fer í riðil með Serbíu, Georgíu og Finnlandi þar.

Það kemur Íslandi afar vel að hafa borið svo öruggan sigur úr býtum og raun bar vitni í þessum leik en vinni Sviss í lokaleiknum mun liðið með bestu stigatöluna fara áfram.

Fyrir lokaumferðina er Ísland með 28 stig í plús, Sviss 12 stig í mínús og Portúgal 16 stig í mínús.

Sviss þarf af þeim sökum að sigra með að minnsta kosti 20 stiga mun í leiknum á miðvikudaginn til þess að hrifsa toppsætið í riðlinum af íslenska liðinu.