Ísland laut í lægra haldi 29-19 fyrir Noregi í þriðju umferð D-riðilsins á heimsmeistaramótinu skipað leikmönnum 21 árs og yngri sem haldið er á Spáni að þessu sinni.

Norðmenn náðu fljótlega frumkvæði í leiknum og byggðu upp þægilegt forskot sem íslenska liðið náði ekki að gera neina alvöru atlögu að því að brúa.

Robin Paulsen Haug markvörður norska liðsins reyndist leikmönnum íslenska liðsins erfiður en hann varði tæplega 20 skot í leiknum.

Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur hjá Íslandi með fjögur mörk og Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Elliði Snær Viðarsson komu næstir með þrjú mörk hvor.

Íslenska liðið hafði áður haft betur í leikjum sínum gegn Síle og Argentínu í fyrstu tveimur umferðum riðlakeppninnar.

Síðustu tveir leikir íslenska liðsins í riðlinum eru gegn Danmörku á morgun og svo Þýskalandi á mánudaginn kemur.