Ísland mun leika um fimmta til áttunda sæti í B-deild Evrópumótsins í körfubolta karla skipuðu leikmönnum 20 ára og yngri sem haldið er í Portúgal þessa dagana.
Þetta varð ljóst eftir 77-67 tap liðsins gegn Tékklandi í átta liða úrslitum mótsins í dag.
Íslenska liðið var fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, staðan var jöfn 34-34 í hálfeik en í þeim þriðja náðu Tékkar 59-52 forystu og fóru að lokum með tíu stiga sigur af hólmi.
Bjarni Jónsson var stigahæstur hjá íslenska liðinu með 20 stig og Hilmar Smári Henningsson kom næst með 19 stig. Ekki liggur fyrir hver andstæðingur Íslands verður í fyrri leiknum í baráttunni um að hafna í fimmta sæti.