Holland fór með 2-0 sigur af hólmi þegar liðið mætti Íslandi í undankeppni HM 2023 í fótbolta kvenna á Laugardalsvelli í kvöld.

Það var Daniëlle Van De Donk sem kom Hollandi yfir um miðbik fyrri hálfleiks en hún fékk þá of mikinn tíma til þess að athafna sig og kom boltanum í netið.

Sveindís Jane Jónsdóttir, sem var hættulegasti leikmaður íslenska liðsins í leiknum, komst næst því að skora fyrir Ísland í fyrri hálfleik en Sari van Veenendaal varði skot hennar utan af kanti.

Þá var Sveindís Jane hársbreidd frá því að finna Berglindi Björg Þorvaldsdóttur inni í vítateig hollenska liðsins eftir góðan sprett en hollenska liðið náði að bægja hættunni frá.

Hollenska liðið fór greinilega vel yfir þá hættu sem Sveindís Jane var að skapa í fyrri hálfleik í hálfleik og leikmenn liðsins náðu að loka betur á hana í þeim seinni.

Íslenska liðinu gekk illa að búa til færi framan af seinni hálfleik en Dagný Brynjarsdóttir komst hins vegar nálægt því að jafna metin eftir rúmlega stundarfjórðungs leik.

Jackie Groenen tvöfaldaði svo forystu Hollands eftir rúmlega klukkutíma leik en Sandra Sigurðardóttir réð þá ekki við gott skot hennar utan vítateigs.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, sem kom inná sem varamaður í leiknum, kom sér í gott skotfæri skömmu eftir að Holland náði tveggja marka forskoti.

Karólína Lea fékk boltann eftir góða pressu Svövu Rósar Guðmundsdóttur og Öglu Maríu Albertsdóttur en skot hennar fór hársbreidd framhjá.

Skömmu fyrir lok leiksins fékk Ísland tvö upplögð færi til þess að koma sér inn í leikinn.

Fyrst var það Agla María sem kom sér í góða stöðu eftir að hafa fengið frábæra sendingu frá Karólínu Leu. Svo lagði Sveindís Jane boltann út á Dagnýju en skot þeirra beggja fóru yfir mark Hollands.

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað: Sandra Sigurðardóttir - Hallbera Guðný Gísladóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Guðný Árnadóttir - Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (f) (Karítas Tómasdóttir '90), Alexandra Jóhannsdóttir (Karólína Lea Vilhjálmsdóttir '63), Dagný Brynjarsdóttir - Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Svava Rós Guðmundsdóttir '63), Sveindís Jane Jónsdóttir (Amanda Jacobsen Andradóttir '90).

Amanda Jacobsen Andradóttir, hinn 17 ára framherji Vålerenga lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland í þessum leik.

Fyrr í dag vann Tékkland sannfærandi 8-0 sigur þegar liðið mætti Kýpur í riðlinum. Tékkland og Holland eru þar af leiðandi á toppi riðilsins með fjögur stig eftir tvo leiki, Hvíta-Rússland hefur þrjú stig eftir sigur sinn gegn Kýpur og Ísland og Kýpur eru án stiga.

Næsti leikur Íslands í riðlinum er móti Tékklandi föstudaginn 21. október á Laugardalsvelli.