Óttar Magnús Karlsson og Jón Dagur Þorsteinsson skoruðu mörk íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Svíþjóð í vináttulandsleik í Doha í Katar í dag. 

Óttar Magnús kom Íslandi yfir þegar hann skoraði með föstu og hnitmiðuðu skoti rétt utan vítateigs í upphafi leiksins. 

Jón Dagur jafnaði svo metin í uppbótartíma leiksins eftir að hafa komið inná sem varamaður í leiknum. Þetta var fyrsta landsliðsmark Jóns Dags sem kláraði færið vel efitr að hafa fengið sendingu inn fyrir vörn Svía. 

Eiður Aron Sigurbjörnsson, Axel Óskar Andrésson og Kolbeinn Birgir Finnsson léku sinn fyrsta A-landsleik í þessum leik. 

Lið Íslands var þannig skipað: 4-3-3. Markvörður: Frederik Schram - Vörn: Böðvar Böðvarsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson (Axel Óskar Andrésson), Hjörtur Hermannsson, Birkir Már Sævarsson - Miðja: Samúel Kári Friðjónsson, Eggert Gunnþór Jónsson (Hilmar Árni Halldórsson), Arnór Smárason (Aron Elís Þrándarson) - Sókn: Óttar Magnús Karlsson, Andri Rúnar Bjarnarson (Jón Dagur Þorsteinsson), Guðmundur Þórarinsson (Kolbeinn Birgir Finnsson).