Ísland vann stóran 39-24 sigur þegar liðið mætti Alsír í annarri umferð í riðlakeppni heimsmeistarmótsins í Kaíró í Egyptalandi í kvöld. Íslenska liðið hefur þar af leiðandi tvö stig eftir tvo leiki.

Það var snemma ljóst hvoru megin sigurinn myndi enda en leikmenn íslenska liðsins léku firnasterkan varnarleik og vel útfærðan sóknarleik gegn framliggjandi vörn Alsír. Staðan í hálfleik var 22-10 Íslandi í vil.

Bjarki Már Elísson lék á als oddi í fyrri hálfleiknum en hann skoraði níu mörk. Bjarki Már nýtti öll skotin sem hann tók fyrsta hálftíma leikins. Þegar upp var staðið urðu mörkin 12 hjá Bjarki Má í 13 skotum.

Björgvin Páll Gústavsson sem var utan hóps í tapinu gegn Portúgal í fyrstu umferðinni stóð á milli stanganna í íslenska markinu lungann úr leiknum í kvöld en hann varð 12 skot í leiknum og skoraði enn fremur eitt mark.

Arnór Þór sem komst ekki á blað í leiknum á móti Portúgal opnaði markareikning sinn á mótinu í fyrstu sókn leiksins en hann skoraði fyrsta og síðasta mark fyrri hálfleiksins.

Ísland átti ekk í vandræðum með varnarafbrigði Alsír

Varnarleikur Alsír hentaði íslenska liðinu vel en Ísland hefur á að skipa snöggum og klókum leikmönnum í útilínunni. Gísli Þorgeir Kristjánsson var til að mynda iðinn við að galopna vörn Alsíringa með snerpu sinni og krafti.

Leikstjórnandinn öflugi gaf fimm stoðsendingar á samherja sína, náði í tvö víti og gaf eina sendingu sem varð að vítakasti auk þess að hefja margar sóknir með sendingum sínum.

Ólafur Andrés Guðmundsson átti einnig góðan leik en hann skoraði sex mörk, gaf fjórar stoðsendingar, sótti tvö víti og tvær sendingar frá honum leiddu til vítakasts. Alexander Peterson stal svo boltanum þrisvar sinnum í leiknum.

Oddur Grétarsson sem er að spila á sínu fyrsta stórmóti með íslenska liðinu síðan á Evrópumótinu í Serbíu árið 2012 leysti Bjarka Má af hólmi í vinstra horninu um miðbik seinni hálfleiks. Oddur skoraði í fyrstu skottilraun sinni og hann bætti síðan tveimur mörkum við seinna í leiknum.

Elliði Snær Viðarsson skoraði sín fyrstu mörk á stórmóti í þessum leik og Magnús Óli Magnússon þreytti frumraun sína á þeim vettvangi. Magnús Óli skapað þrjú færi og gaf tvær stoðsendingar á þeim tæplega tíu mínútum sem hann spilaði í leiknum.

Mörk Íslands í leiknum: Bjarki Már Elísson 12 , Ólafur Andrés Guðmundsson 6, Alexander Peterson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Oddur Grétarson 3, Viggó Kristjánsson 3, Arnór Þór Gunnarsson 2, Elliði Snær Viðarsson 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 1, Björgvin Páll Gústavsson 1.

Janus Daði Smárason hvíldi að þessu sinni vegna eymsla í öxl sem eru að plaga hann. Þá voru Viktor Gísli Hallgrímsson, Kári Kristján Krisjánsson og Kristján Örn Kristjánsson horfðu á leikinn með Janusi Daða uppi í stúku.

Í síðustu umferð riðlakeppninnar leikur Ísland við Marokkó. Sá leikur fer fram á mánudagskvöldið kemur. Fyrir lokaumferðina er Portúgal á toppi riðilsins með fjögur stig, Ísland og Alsír hafa tvö stig hvort lið og Marokkó er án stiga.

Jafntefli eða sigur fleytir þar af leiðandi íslenska liðinu áfram í milliriðilinn þar sem komið er í ljós er í ljós að Frakkland mun verða. Noregur, Sviss og Austurríki berjast svo um að fylgja Frökkum þangað í lokaumferð þess riðils.