Ísland og Svíþjóð eru áfram með jafn mörg stig á toppi F-riðils í undankeppni EM 2022 í knattspyrnu kvenna en liðin gerðu jafntefli, 1-1, þegar þau mættust í toppslag riðilsins á Laugardalsvellinum í kvöld.

Það var Anna Anvegård, liðsfélagi Glódísar Perlu Viggósdóttur hjá Rosengård sem kom Svíum í forystu eftir rúmlega hálftíma leik.

Eftir að jafnræði hafði verið með liðunum framan af fyrri hálfleik náði sænska liðið hægt og rólega undirtökum í leiknum og hafði átt nokkur fín færi áður en að markinu kom.

Skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks kom Sara Björk Gunnarsdóttir, sem jafnaði leikjamet Katrínar Jóndsóttur í leiknum í dag, boltanum yfir línuna.

Dómari leiksins taldi hins vegar Glódísi Perlu hafa verið brotlega á markverði Svía í aðdraganda þess að Sara Björk fékk boltann til sín og markið því ekki dæmt gott og gilt. Ansi strangur dómur hjá króatíska dómaranum.

Skömmu síðar átti Sveindís Jane Jónsdóttir sem átti mjög góðan leik á kantinum þar sem hún ógnaði hvað eftir annað með krafti sínum og hraða frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á Dagnýju Brynjarsdóttur sem skallaði boltann yfir.

Í upphafi seinni hálfleiks náði íslenska liðið betri tökum á uppspili sínu auk þess sem pressa liðsins var árangursríkari. Ísland uppskar laun erfiðisins þegar rúmur klukkutími var liðinn af leiknum.

Sveindís Jane átti þá eitt af sínum löngu innköstum inn á vítateig sænska liðsins og boltinn rataði fyrir fætur Elínar Mettu Jensen sem kláraði færið af stakri prýði. Þetta er sjötta markið sem Elín Metta skorar í undankeppninni og er hún þar af leiðandi orðin markahæst hjá íslenska liðinu.

Anna Anvegård minnti á sig aftur þegar um það bil 20 mínútur voru eftir af leiknum en að þessu sinni sá Sandra Sigurðardóttir sem átti afbragðs leik í marki Íslands við henni.

Hinum megin var Elín Metta nálægt því að skora sitt annað mark og tryggja íslenska liðinu stigin þrjú þegar hún skaut boltanum í þverslá eftir hornspyrnu Hallberu Guðnýjar. Þá var Sveindís Jane hársbreidd frá því að vinna boltann af markverði Svía eftir góða pressu rúmar tíu mínútur voru eftir.

Alexandra Jóhannsdóttir átti svo fína tilraun fyrir utan vítateig rétt áður en venjulegum leiktíma lauk. Hvorugu liðinu tókst að skora sigurmark og skiptust þau því á jafnan hlut.

Lið Íslands var þannig skipað í leiknum: Markmaður: Sandra Sigurðardóttir. Vörn: Hallbera Guðný Gísladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. Miðja: Sara Björk Gunnarsdóttir (fyrirliði), Alexandra Jóhannsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir. Sókn: Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Hlín Eiríksdóttir), Elín Metta Jensen (Berglind Björg Þorvaldsdóttir), Sveindís Jane Jónsdóttir.

Liðin hafa hvort um sig 13 stig þegar þau hafa spilað fimm leiki eftir þessi úrslit. Þau mætast á nýjan leik í næstu umferð undankeppninnar í Gautaborg þriðjudaginn 27. október næstkomandi. Svíar verma toppsætið fyrir þann leik þar sem liðið fjórum mörkum betri markatölu.

Efsta liðið í hverjum riðli í undankeppninni fer beint í lokakeppni mótsins og þau þrjú lið með bestan árangur í riðlunum níu fylgja þeim þangað. Hin sex liðin sem hafna í öðru sæti fara í umspil um síðustu þrjú lausu sætin á mótinu.

Leikmenn íslenska liðsins voru eðlilega ekki sáttar þegar markið var dæmt af.
Fréttablaðið/Valli