Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, ákvað það á fundi sem haldinn var í morgun að fresta umspilsleikjum fyrir Evrópumótið í knattspyrnu karla sem fram fer næsta sumar sem færðir höfðu verið fram í júní um óákveðinn tíma.

Þannig munu Ísland og Rúmenía ekki mætast í umspili um laust sæti á mótinu fimmtudaginn 4. júní á Laugardalsvelli eins og stefnt hafði verið að. Upphaflega stóð til að spila leikinn 26. mars síðastaliðinn en honum var frestað vegna kórónaveirufaraldursins.

Þá verður leikjum íslenska kvennalandsliðsins á móti Lettum og Svíum í undankeppni EM 2021 sem voru á dagskrá í byrjun júní einnig verið frestað og ekki er komin ný dagsetning á þá leiki.

UEFA tók einnig ákvörðun um það á fundinum í dag að fresta ótímabundið þeim leikjum sem eftir eru á yfirstandandi leiktíð í Meistaradeild karla og kvenna og Evrópudeild karla.

Allar deildarkeppnir í Evrópu fyrir utan deildina í Hvíta-Rússlandi eru í hléi eins og sakir standa en talið er að ákvörðun verði tekin um það á næstu dögum hvert framhaldið verði í stærstu deildum álfunnar.