Hin 25 ára gamla Noelle Lambert keppir í nýjustu seríunni af Survi­vor, sem væri kannski ekki í frá­sögur færandi ef ekki væri fyrir þá stað­reynd að hún hefur misst fót­legg fyrir ofan hné og keppir með gervi­fót frá Össuri.

Lambert er jafn­framt ólympíu­fari en hún keppti fyrir hönd Banda­ríkjanna í sprett­hlaupi á ólympíu­leikum fatlaðra árið 2020 í Tókýó. Hún missti fót­legginn fyrir neðan hné árið 2016 í al­var­legu slysi á Martha's Vineyard eyjunni í Massachusetts ríki.

Hún er fyrsti keppandinn í raun­veru­leika­þáttunum til þess að hafa misst svo stóran hluta fót­leggsins en áður hafa tveir keppt í þáttunum sem misst hafa fót­legg fyrir neðan hné.

Lambert var einn af bestu lacrosse spilurum Banda­ríkjanna áður en hún missti fót­legginn en í sam­tali við Boston Globe segist hún aldrei hafa látið þetta slys stöðva sig. „Ég vildi vera full­trúi þeirra sem misst hafa út­lim og full­trúi sam­fé­lags fatlaðra og láta að mér kveða á já­kvæðan hátt,“ segir Lambert.

„Ég vildi sýna heiminum, að jú jú ég er fötluð - en það þýðir ekkert að ég geti ekki gert hluti,“ segir Lambert. Hún lýsir því við Boston Globe hvernig hún hafi lært að ganga, hlaupa og síðar spila lacrosse aftur með gervi­fót.

Svo söðlaði hún um og tók keppni í sprett­hlaupi og setti Banda­ríkja­metið í 100 metra sprett­hlaupi fatlaðra í að­draganda ólympíu­leikanna í Tókyó.

Þorði ekki að sækja um þátt­töku sjálf

Lambert er mikill að­dáa­andi Survi­vor raun­veru­leika­þáttanna en segist í sam­tali við Boston Globe ekki hafa þorað að sækja um.

„Það þurfti að hafa sam­band við mig,“ segir Lambert sem fékk skila­boð frá þátta­stjórnanda Survi­vor um það hvort hún hefði á­huga á að vera með í þættinum. Hún segist hafa haldið að um væri að ræða svika­póst sem var svo alls ekki raunin.

Í febrúar hafi svo kallið komið og hún spurð hvort hún væri til í að mæta til Fiji eyja og taka þátt í nýrri seríu. Hún segist hafa fríkað út, en kepp­endum gefst lítill tími til að á­kveða sig og tökur hefjast í raun fljót­lega eftir að þeim er til­kynnt að þeir muni taka þátt.

Að lokum á­kvað Lambert að slá til og segist hún hafa setið yfir gömlum við­tölum við kepp­endur og hám­horft á gamlar seríur.

„Ég lá bara and­vaka og hugsaði: Hvernig ætla ég að gera þetta? Ég er sú fyrsta sem hefur misst fót­legg fyrir ofan hné. Það hafa verið tveir áður sem hafa misst fót­legg fyrir neðan hné - en þeir kepp­endur eru mjög ó­líkir. Það fer miklu meira fyrir þeim sem hafa misst fót­legg eins og ég fyrir ofan hné. Ég vissi að ég yrði að sanna mig strax í fyrstu keppni,“ segir Lambert.

Viðtöl við keppendur í 43. seríunni af Survivor. Viðtal við Noelle hefst á mínútu 12:07.

Skít­hrædd um að missa gervifótinn

Í Survi­vor snýst svo allt um sam­skipti við aðra kepp­endur, allt til þess að komast hjá því að vera kosinn í burtu af eyjunni; um traust, svik og pretti.

„Þegar ég steig á þessa strönd hugsaði ég bara „Það eru allir að horfa á mig ein­mitt núna. Ég þarf að sanna að ég sé manneskja sem þau vilja hafa hérna. Til við­bótar við líkam­lega leik minn þá þurfti fé­lags­legi leikurinn minn að vera full­kominn.“

Lambert segist hafa verið skít­hrædd um að missa gervi­fótinn í hverri einustu keppni. „Ég óttaðist að eitt­hvað myndi fara úr­skeiðis, að gervi­fóturinn dytti af í keppni eða að ég myndi ekki ráða við á­kveðnar þrautir og að það myndi kosta ætt­bálkinn minn sigur. Það voru hlutirnir sem ég hafði mestar á­hyggjur af.“

Fréttablaðið/Skjáskot