Ísland mun eiga fimm fulltrúa í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla í vetur, en leikið var í umspili um laus sæti í riðlakeppninni viðs vegar um Evrópu í kvöld. 

Hannes Þór Halldórsson var fjarri góðu gamni vegna nárameiðsla þegar lið hans, Qaraabag, tryggði sér sæti í riðlakeppninni með 3-0-sigri gegn Sheriff sem hafði áður slegið Val úr keppninni. 

Arnór Ingvi Traustason kom inná undir lok leiksins fyrir Malmö þegar liðið lagði Midtjylland að velli, 2-0, og tryggði sig þannig í riðlakeppnina.

Sigur Maccabi Tel-Aviv með Viðar Örn Kjartansson innanborðs með tveimur mörkum gegn einu gegn samherjum Orra Sigurðar Ómarssonar hjá Sarpsborg dugði ekki til. 

Viðar Örn var í byrjunarliði ísraelska liðsins, en var tekinn af velli í hálfleik og Orri Sigurður var ekki í leikmannahópnum hjá norska liðinu. 

Sarpsborg sem hafði betur gegn ÍBV fyrr í keppninni bar sigurorð í fyrri leiknum með þremur mörkum gegn tveimur og norska liðið fer því samanlagt áfram 4-3.  

Matthías Vilhjálmsson ferðaðist ekki með liði sínu, Rosenborg, frá Noregi til Skopje í Makedóníu þar sem liðið sigldi heim sæti sínu í riðlakeppninni þægilegum tveggja marka sigri. 

Hjörtur Hermannsson sat allan tímann á varamannabekk hjá danska liðinu Bröndby þegar liðinu tókst ekki að snúa erfiðri stöðu sér í vil gegn belgíska liðinu Genk. 

Jóhann Berg Guðmundsson var svo fjarverandi vegna meiðsla sem hann varð fyrir í síðasta deildarleik með Burnley þegar Olmpiakos batt enda á Evrópuvegferð enska liðsins. 

Guðlaugur Victor Pálsson og samherjar hans í Zürich fóru síðan beint inn í riðlakeppnina með því að verða bikarmeistarar í Sviss síðasta vor.