Björgvin Páll Gústavsson reyndist hetja Íslendinga en nokkrar mikilvægar markvörslur á lokasekúndum leiksins innsigluðu 31-30 sigur Íslands á Ungverjalandi á EM 2022 í handbolta.

Með því fer Ísland áfram í milliriðlana með fullt hús stiga. Þetta var fyrsti sigur Íslands á Ungverjum í tíu ár.

Ungverjar þurftu sárlega á sigri að halda en Íslendingum dugði jafntefli á gríðarlega erfiðum heimavelli ungverska liðsins. Sigur íslenska liðsins þýðir að Ungverjar eru úr leik.

Ísland var með frumkvæðið framan af leiks en Ungverjarnir hleyptu Strákunum okkar aldrei langt frá sér. Sóknarleikurinn var í forgangi og áttu varnirnar oft lítið af svörum.

Aron Pálmarsson hafði hægt um sig í sóknarleik Íslands framan af en í hans fjarveru stigu liðsfélagarnir upp og áttu Bjarki Már Elísson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Sigvaldi Björn Guðjónsson allir stórgóða í sókn.

Á hinum enda vallarins réðu varnarmenn Íslands illa við hinn hávaxna og nautsterka Bence Banhidi. Ungverjar leituðu ítrekað að Banhidi inn á línunni enda gekk illa að stöðva Banhidi.

Ómar Ingi sækir að marki Ungverja í kvöld
fréttablaðið/getty

Strákarnir okkar náðu aftur tveggja marka forskoti þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en Ungverjar svöruðu um hæl og var allt jafnt þegar korter var til leiksloka.

Ísland hélt áfram að vera með frumkvæðið í leiknum. Þrátt fyrir að fá margar brottvísanir hélt sóknarleikur Íslands góðu flæði og Björgvin Páll Gústavsson tók mikilvæg skot þess á milli.

Sóknarleikur Íslands missti aðeins taktinn á lokamínútu leiksins en þá tók Björgvin annan mikilvægan bolta og sá til þess að Ísland vann leikinn.

Bjarki var markahæstur í liði Íslands með níu mörk úr ellefu skotum og Ómar Ingi var með átta mörk.