Íslenska u-21 árs landsliðið mætir Tékklandi í umspilinu fyrir lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu sem fer fram í september síðar á þessu ári. Dregið var í umspilið í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í morgun.

Viðureignirnar í umspilinu:

Króatía - Danmörk
Slóvakía - Úkraína
Írland - Ísrael
Ísland - Tékkland

Átta lið voru í pottinum þegar dregið var í morgun en leikirnir munu fara fram á tímabilinu 19. -27. september næstkomandi. Leikið verður heima og að heiman þar sem sigurvegarar einvígisins komast áfram í lokakeppni Evrópumótsins. Lokamótið fer fram í Georgíu og Rúmeníu og hefst þann 21. júní á næsta ári.

Tékkar enduðu í 2.sæti G-riðils í undankeppninni, unnu sjö leiki af tíu og enduðu þremur stigum á eftir Englandi.