Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætir Slóveníu í umspili um laust sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni í desember seinna á þessu ári.

Dregið var í umspilið í gær en íslenska liðið tryggði sér þátttökurétt í umspilinu með sigri gegn Grikklandi og Litháen í forkeppni fyrir lokamótið um nýliðna helgi.

Fyrri leikurinn fer fram í Slóveníu 16. eða 17. apríl og sá síðari hér heima 20. eða 21. apríl.

Liðin mættust í undankeppni EM í mars 2018, fyrri leikurinn í Laugardalshöll endaði með jafntefli 30-30 en Slóvenar unnu síðari leikinn ytra með 10 marka mun 28-18.