Íslenska karlalandsliðið í knattpspyrnu gerði markalaust jafntelfi þegar liðið sótti Tyrkland heim í næst síðustu umferð í undankeppni EM 2020. Það þýðir að Tyrkland og Frakkland fara beint í lokakeppni mótsins en Ísland mun leika í umspili um laust sæti í mótinu í mars á næsta ári.

Leikurinn var frekar lokaður í fyrri hálfleik og fátt var um opin marktækifæri. Burak Yilmaz fékk besta færi fyrri hálfleiksins en skalli hans fór sem betur fer yfir mark íslenska liðsins.

Alfreð Finnbogason fór meiddur af velli um miðbik fyrri hálfleiks en hann meiddist á hendi í baráttu sinni við Caglar Söyüncü miðvörð tyrkneska liðsins.

Yilmaz var svo aftur á ferðinni í upphafi seinni hálfleiks en fyrirgjöf hans nálægt endalínu endaði í þverslánni á marki Íslands og skömmu síðar komst hann í fínt færi en skot hans fór framhjá.

Arnór Sigurðsson fékk fyrsta opna færi Íslands en Jón Daði Böðvarsson átti þá góðan sprett upp hægri vænginn, lagði hann út á Arnór sem skaut í varnarmann.

Skömmu síðar fór Arnór Ingvi Traustason meiddur af velli en hann virtist hafa tognað aftan í læri. Hörður Björgvin Magnússon kom inná í hans stað og Ari Freyr Skúlason færði sig upp á vinstri vænginn.

Hörður komst næst því að brjóta ísinn

Yilmaz hélt áfram að láta að sér kveða en þegar rúmar 20 mínutur voru eftir af leiknum átti hann skot af vítateigslínunni sem Hannes Þór Halldórsson varði þægilega. Ozan Tufan freistaði tvisvar sinnum gæfunnar af löngu færi en í fyrra skiptið fór bolinn yfir marki íslenska liðsins og í það seinna fór boltinn í fangið á Hannesi Þór.

Jón Daði var arkitektinn að öðru færi íslenska liðsins í leiknum þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum en hann setti þá upp skotfæri fyrir Gylfa Þór Sigurðssonar en tyrkneski varnarmúrinn var fyrir.

Hörður Björgvin komst svo næst því að tryggja Íslandi sigurinn en Merih Demiral bjargaði á línu eftir skalla hans. Gylfi Þór fann kollinn á Herði sem átti góðan skalla sem var hársbreidd frá því að fara yfir línuna.

Mikael Neville Anderson kom inná í sínum fyrsta mótsleik þegar hann kom inná fyrir Ara Frey. Mikael Neville hafði leikið einn vináttulandsleik fyrir A-landsliðið fyrir þennan leik.

Yusuf Yazici átti svo síðasta skot leiksins utan af kanti í uppbótartíma leiksins sem hafnaði í þverslánni á marki íslenska liðsins. Síðasta færi Íslands var svo þegar Guðlaugur Victor Pálsson fékk boltann í vítateig Tyrkja og skaut í varnarmann. Markalaust jafntefli því staðreynd.

Tyrkland er á toppi riðilsins með 20 stig en Frakkland sem á leik til góða gegn Moldóvu í kvöld kemur þar á eftir með 19 stig. Ísland er svo í þriðja sæti með 16 stig og Albanía sem mætir Andorra í kvöld er svo í því í fjórða með 12 stig.