Ísland er komið á næsta stig í undankeppni HM 2023 í körfubolta. Íslenska liðið tryggði sér farseðilinn þangað með sannfærandi 89-73 sigri gegn Danmörku í leik liðanna í Podgorica í Svartfjallalandi í kvöld.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en leikmenn íslenska liðsins voru 26-18 yfir þegar annar leikhluti hófst. Áfram tókst danska liðinu að halda sér inn í leiknum í öðrum leikhluta en staðan var 47-39 fyrir Íslandi í hálfeik.

Í seinni hálfleik jók íslenska liðið svo muninn hægt og bítandi og Ísland fór að lokum 16 stiga sigur af hólmi.

Elvar Már Friðriksson var stigahæstur hjá íslenska liðinu 21 stig, Ægir Þór Steinarsson kom næstur með 17 stig og Kristófer Acox þar á eftir með 16 stig. Ægir Þór hitti úr öllum níu skotunum sem hann tók í leiknum.

Kári Jónsson skilaði svo 12 stigum á töfluna, Tryggvi Snær Hlinason níu og Hörður Axel Vilhjálmsson fimm. Kristinn Pálsson, Ólafur Ólafsson og Sigtryggur Arnar Björnsson settu svo niður þrjú stig hver.

Kristófer tók þar að auki níu fráköst og Elvar Már gaf átta stoðsendingar og Hörður Axel og Ægir Þór sjö stoðsendingar hvor.

Þessi sigur tryggir Íslandi áfram í undankeppnina fyrir lokakeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Filippseyjum, Japan og Indónesíu árið 2023.

Ísland hafði betur í báðum leikjum við Dani í forkeppninni og tapaði tvisvar fyrir Svartfjallalandi. Íslenska liðið hafnaði í öðru sæti í riðlinum sem sem skilar sæti í undankeppninni.

Dregið verður í riðla í undankeppnina 31. ágúst og riðlakeppnin hefst svo í nóvember og stendur yfir til febrúar árið 2023