Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tryggði sér sæti í umspili um laust sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer á Spáni í desember seinna á þessu ári með afar sannfærandi 33-23 sigri sínum gegn Litháen í lokaumferð í forkeppni fyrir mótið í Skopje í Norður-Makedóníu í kvöld.

Ísland náði frumkvæði strax í upphafi leiksins og það var í raun aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Þessi sigur tryggði Íslandi annað sætið í riðlinum og þar með sæti í umspilinu sem leikið verður um miðjan apríl næstkomandi.

Lovísa Thompson var markahæst hjá íslenska liðinu með sex mörk en Ásdís Guðmundsdóttir, Birna Berg Haraldsdóttir, Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Sigríður Hauksdóttir Tinna Sól Björgvinsdóttir komu næstar með fjögur mörk hver.

Eva Björk Davíðsdóttir, Harpa Valey Gylfadóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir skoruðu svo tvö mörk hver og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir bætti einu marki við í sarpinn.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði tæplega tíu skot i íslenska markinu og Saga Sif Gísladóttir tvö. Þetta var fyrsti A-landsleikurinn sem Saga Sif spilar.

Þegar dregið verður i umspil getur Ísland mætti Tékklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Svartfjallandi, Póllandi, Rúmeníu, Rússlandi, Serbíu, Slóveníu eða Svíþjóð. Það eru tíu hæstu liðin á styrkleikalista alþjóða handboltasambandsins, IHF, sem hafa ekki nú þegar tryggt sér farseðilinn til Spánar.