Íslenska karlalandsliðið í körfubolta er komið áfram á lokastig undankeppninnar fyrir Heimsmeistaramótið í körfubolta 2023 og er í raunhæfum möguleika á að komast í lokakeppnina í fyrsta sinn eftir að FIBA úrskurðaði Rússum ósigur í öllum leikjum liðsins í undankeppninni.

Með því er ljóst að Ísland, Ítalía og Holland fara áfram á seinna stig undankeppninnar í sex liða riðil þar sem þrjú lið fara áfram á HM.

Ísland tapaði fyrir Rússum ytra á síðasta ári og átti að mæta Rússum í næsta mánuði en eftir innrás Rússa í Úkraínu var ákveðið að ógilda úrslit Rússa í keppninni.

Íslenska liðið mætir því hollenska í næsta mánuði og getur með sigri tekið þrjá sigra með sér í næsta riðil þar sem líklegt er að Georgía, Spánn og Úkraína bíði Íslendinga.