Íslenska karlalandsliðið í körfubolta er komið áfram á næsta stig í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer árið 2023 en liðið tryggði sér áfram úr forkeppni mótsins með 94-79 sigri gegn Slóvakíu í leik liðanna í Pristina í Kósóvó í dag. Um var að ræða lið í næstsíðustu umferð riðilsins.

Jafnræði var með liðunum framan af leik og Slóvakar hófu leikinn betur. Kári Jónsson átti góða innkomu inn í fyrsta leikhluta og Tryggi Snær Hlinaason var sterkur á báðum endum vallarins. Staðan eftir fyrsta leikhluta var jöfn, 20-20 og áfram var jafnt á öllum tölum í öðrum leikhluta.

Tryggvi Snær fékk sína þriðju villu um miðbik annars leikhluta og var hvíldur það sem eftir var annars leihluta af þeim sökum. Ragnar Ágúst Nathanaelsson kom vel inn af varamannabekknum á þeim tímapunkti. Ragnar Ágúst fékk hins vegar fjórar villur á þeim tíma og var því sömuleiðis kominn í villuvandræði.

Íslenska liðið var fjórum stigum yfir, 43-39, þegar komið var að hálfleik. Jón Axel Guðmundsson var stigahæstur hjá íslenska liðinu á þeim tímapunkti með 14 stig.

Tryggvi Snær fékk svo sína fjórðu villu í upphafi þriðja leikhluta sem leikmenn íslenska liðsins hófu betur. Jón Axel kom Íslandi níu stigum yfir með þriggja stiga körfu, 54-45, en skömmu áður hafði Sigtryggur Arnar Björnsson sett niður þrjú stig af svipuðu færi.

Áfram hélt að bæta jafnt og þétt við forskot sitt og vítaskot Elvars Márs Friðrikssonar komu muninum í 14 stig, 64-50. Járnið var áfram hamrað á meðan það var heitt og Jón Axel kom íslenska liðinu 17 stigum yfir með skoti fyrir utan þriggja stíga línuna. Það var vel við hæfi að Jón Axel kom Íslandi í 24 stiga forskot, 79-55, með lokakörfu þriðja leikhluta.

Tryggvi Snær náði að koma í veg fyrir að hann fengi fimmtu villuna og þar með útilokun í fjórða leikhluta og skoraði þegar upp var staðið 17 stig og tók þar að auki 14 fráköst. Hörður Axel Vilhjálmsson og Kári fengu aftur á móti báðir sína fimmtu villu um miðjan leikhluta.

Það kom hins vegar ekki að sök þrátt fyrir að slóvakíska liðið hafi lagað stöðuna undir lok leisins. Líkt og í þriðja leikhluta kláraði Jón Axel, sem var stigahæsti leikur íslenska liðsins, leikinn með huggulegum þristi og öruggur sigur íslenska liðsins staðreynd. Farseðilinn í næsta stig undankeppninnar er þar með í höfn.

Stigaskor Íslands í leiknum: Jón Axel Guðmundsson 29 stig, Tryggvi Snær Hlinason 17 stig, Elvar Már Friðriksson 16 stig, Sigtryggur Arnar Björnsson 12 stig, Kári Jónsson 11 stig, Hörður Axel Vilhjálmsson 5 stig, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 2 stig, Tómas Þórður Hilmarsson 2 stig,

Ísland er þar af leiðandi á toppi riðilsins með og er komið áfram í næsta stig undankeppninnar sem fram fer fram í ágúst. Íslenska liðið mætir Lúxemborg í lokaleik sínum á fyrsta stigi forkeppninnar á laugardaginn kemur.