Sundsamband Íslands kaus með tillögunni um að banna trans konum að keppa á afreksstigi í kvennaflokki í kosningu Alþjóðasundsambandsins um helgina.

Þetta staðfesti Björn Sigurðsson, formaður Sundsambands Íslands, í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Við vorum með fulltrúa á okkur vegum á þinginu sem kaus með þessari tillögu líkt og aðrar skandinavískar þjóðir. Það er ekki verið að banna trans konum að taka þátt í sundi, heldur að banna þeim að taka þátt í kvennagreinum afreksstigi á grundvelli þess að það sé ósanngjarnt fyrir konur að keppa gegn einstaklingum sem hafa farið í gegnum kynþroskaskeiðið í öðru kyni.“

Alþjóðasundsambandið, FINA, kynnti í dag reglur um að banna trans fólki að keppa í karla- og kvennaflokki á afreksstigi. Alls tóku 152 sambönd þátt í kosningunni og hlaut tillagan samþykki hjá 71 prósent fundagesta.

Samkvæmt rannsókn sem var kynnt á ársþingi FINA var hægt að mæla forskot hjá einstaklingum sem höfðu tekið út kynþroskaskeiðið áður en þau fóru í gegnum kynjaleiðréttingu.

„Flestir sem voru á ráðstefnunni kusu á þennan hátt, en grundvöllur fyrir þessari kosningu var stofnun vinnuhóps sem er mun skoða alla vinkla þessarar ákvörðunnar. Vinnan heldur því áfram við nánari útlistun þessarar ákvörðunnar,“ segir Björn enn fremur.

Samkvæmt því þurfa einstaklingar að hafa gengist undir kynleiðréttingu fyrir tólf ára aldur til að geta tekið þátt í keppnum á afreksstigi.

„Þetta er Alþjóðasambandið að leggja línurnar fyrir Heimsmeistaramótið. Forráðamenn Evrópumótsins eiga á eftir að ákveða hvernig þau útrétt þetta. Þarna er aðeins verið að tala um afreksstig.“

Réttindi trans kvenna til þáttttöku á afreksstigi íþrótta hafa verið í brennidepli undanfarna mánuði eftir að Lia Thomas, trans kona, sigraði meðal annars silfurhafa á Ólympíuleiknunum á bandaríska háskólameistaramótinu í sundi í vor.

Thomas var búin að lýsa yfir áhuga á að keppa fyrir hönd Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum en með þessu er sá möguleiki úr sögunni.