Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætti Ítalíu í dag í vináttulandsleik en um var að ræða fyrsta leik Þorsteins H. Halldórssonar við stjórnvölinn hjá liðinu. Leikið var á Coverciano, æfingasvæði ítalska landsliðsins, í Tirrenia. Lokatölur í leiknum urðu 1-0 Ítalíu í vil.

Lítið var um opin færi í fyrri hálfleik en íslenska liðið náði nokkrum sinnum að skapa sér góðar stöður með því að sækja upp vægnina með þátttöku bakvarðanna Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur og Elísu Viðarsdóttur.

Íslenska liðinu gekk ágætlega að halda boltanum þegar líða tók á fyrri hálfleikinn en Alexandra Jóhannsdóttir var oftar en ekki upphafspunkturinn í álitlegum spilköflum liðsins.

Karítas Tómasdóttir sem kom inná fyrir Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í hálfleik var að leika sinn fyrsta A-landsleik í þessum leik.

Í upphafi seinni hálfleiks fengu Ítalir gott færi en Cecilia Rán Rúnarsdóttir sem var að spila sinn annan A-landsleik varði þá vel. Cecilia Rán varði svo aftur vel þegar leikmaður ítalska liðsins slapp einn í gegnum vörn íslenska liðsins.

Þessi 17 ára gamli markvörður sem gekk til liðs við Örebro á dögunum átti afbragðs leik í íslenska markinu en hún greip vel inn í þegar þess þurfti bæði í fyrirgjöfum og þegar ítalska liðið reyndi að opna íslensku vörnina með stungusendingum.

Hún kom hins vegar engum vörnum við þegar Arianna Caruso skoraði sigurmark Ítalíu á 72. mínútu leiksins. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var nálægt því að jafna metin skömmu síðar en skalli hennar eftir hornspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur var varinn.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir sem leysti Elísu af hólmi í hægri bakverðinum síðustu mínútur leiksins lék líkt og Karítas sinn fyrsta A-landsleik í þessu verkefni.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem kom inn í fremstu víglínu íslenska liðsins fyrir Elínu Mettu Jensen um miðbik seinni hálfleiks var nálægt því að jafna metin fyrir Ísland undir lok leiksins.

Berglind Björg fékk þá boltann í upplögðu marktækifæri efitr góðan sprett Sveindísar Jane Jónsdóttir sem kom sömuleiðis inná sem varamaður í seinni hálfleik. Skot Berglindar Bjargar var hins vegar varið. Boltinn hrökk svo til Sveindísar Jane sem fyllti skarð Hlínar Eiríksdóttur á hægri vængnum en Svindís náði ekki að hitta markið.

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað: Cecilia Rán Rúnarsdóttir

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Guðrún Arnardóttir, Glódís Perla Viggósdóttir (Guðný Árnadóttir '46), Elísa Viðarsdóttir (Hafrún Rakel Halldórsdóttir ('87)

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Karítas Tómasdóttir '46), Alexandra Jóhannsdóttir (Berglind Rós Ágústsdóttir ‘87), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir

Agla María Albertsdóttir, Elín Metta Jensen (Berglind Björg Þorvaldsdóttir '72), Hlín Eiríksdóttir (Sveindís Jane Jónsdóttir '62).