Fimmtu­dagurinn næst­komandi markar tíma­mót í sögu enska úr­vals­deildar­fé­lagsins Manchester United en þá mun liðið í fyrsta skipti spila keppnis­leik í Mol­dóvu. Að því til­efni rifjar The At­hletic upp til hvaða landa Manchester United á eftir að ferðast til að spila keppnis­leik en Ís­land er eitt þeirra landa.

Ís­land er eitt tuttugu aðildar­ríkja UEFA sem Manchester United hefur ekki spilað keppnis­leiki á en á þeim lista má einnig finna ná­granna okkar frá Noregi og Fær­eyjum. Þó ber að geta þess að lið Manchester United hefur áður komið til Ís­lands og spilað leik en það var æfingar­leikur.

Manchester United kom hingað til lands í ágúst árið 1982 og spilaði tvo leiki. Einn á Laugar­dals­velli gegn Vals­mönnum og þá spilaði liðið einnig á Akur­eyrar­velli gegn KA.

Í Mol­dóvu á fimmtu­daginn mun Manchester United spila gegn Sheriff Tira­spol í Evrópu­deildinni.