Íslenska karlalandsliðið í handbolta lék frábærlega í seinni hálfleik þegar liðið vann níu marka sigur á móti Portúgal í seinni leik liðanna í undankeppni EM 2022 að Ásvöllum í dag. Lokatölur í leiknum urðu 32-23 Íslandi í hag.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins gerði þrjár breytingar á leikmannahópi liðsins frá tapinu í fyrri leik liðanna sem fram fór ytra á miðvikudaginn síðastliðinn.

Viktor Gísli Hallgrímsson vék fyrir Björgvini Páli Gústavssyni í markvarðarteyminu, Kristján Örn Kristjánsson fyllti skarð Alexanders Peterssonar sem glímir við höfuðmeiðsli sem hann varð fyrir í leiknum í Portúgal og Elliði Snær Viðarsson kom inn í hópinn í stað Kára Kristjáns Kristjánssonar.

Portúgal byrjaði leikinn betur og komst mest fimm mörkum yfir, 12-7, en þá hertu leikmenn íslenska liðsins tökin í vörninni og skoruðu fimm mörk í röð. Fjögur þeirra komu eftir sterkar varnir og með því að skora í autt markið hinum megin.

Íslenska liðið átti í erfiðleikum þegar portúgalska liðið spilaði sjö á sex í fyrri leiknum en svo virtist sem Guðmundur Þórður og teymi hans hafi fundið lausn á því vandamáli á milli leikja. Staðan var svo 13-12 Portúgal í vil í hálfleik.

Bjarki Már Elísson skoraði svo tvö fyrstu mörk seinni hálfleiksins og breytti stöðunni í 14-13 en Bjarki Már hafði þá skorað sex mörk í leiknum og var marhæstur hjá Íslandi.

Það var allt annað að sjá sóknarleik Íslands í seinni hálfleik en í þeim fyrri og um miðbik seinni hálfleiks var staðan 24-17 íslenska liðinu í vil. Skiptir þar einnig sköpum að Ágúst Elí Björgvinsson hrökk í gang í íslenska markinu. Þá dreifði Guðmundur Þórður álaginu vel í leikjunum tveimur við Portúgal og voru ferskar lappir á vellinum allan tímann.

Elvar Örn Jónsson var rétt í þessu að skora sitt 100. mark fyrir A landslið karla. #handbolti #strakarnirokkar

Posted by HSÍ - Handknattleikssamband Íslands on Sunnudagur, 10. janúar 2021

Þegar upp var staðið fór Ísland með afar sannfærandi níu marka sigur af hólmi og hefur nú þrjú stig eftir tvo leiki í undankeppninni en Portúgal sex stig eftir fjóra leiki. Næsti leikur Íslands er gegn Ísrael 11. mars næstkomandi en Litháen og Ísrael eru án stiga í riðlinum.

Mörk Íslands í leiknum: Bjarki Már Elísson 9, Elvar Örn Jónsson 5, Arnór Þór Gunnarsson 3, Elliði Snær Viðarsson 3, Ómar Ingi Magnússon 3, Janus Daði Smárason 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Kristján Örn Kristjánsson 1, Ólafur Andrés Guðmundsson 1, Viggó Kristjánsson 1, Ágúst Elí Björgvinsson 1.

Ágúst Elí varði ellefu skot í leiknum þar af eitt vítakast.

Liðin leiða svo sama hesta sína í þriðja skipti á skömmum tíma þegar þau eigast við í fyrstu umferð í riðlakeppni í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Egyptalandi á fimmtudagskvöldið kemur. Þar eru liðin með Alsír og Marokkó í riðli.