Íslenska karlalandsliðið í handbolta verður með Portúgal, Alsír og Marokkó í riðli á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Egyptalandi í janúar á næsta ári.

Dregið var í riðla í Egyptalandi í kvöld en íslenska liðið var í þriðja styrkleikaflokki í drættinum.

Alfreð Gíslason sem þjálfar þýska landsliðið er í riðli með Ungverjalandi, Úrúgvæ og Grænhöfðaeyjum. Danir sem eru ríkjandi meistarar eru með Argentínu, Bahrein og Kongó í riðli.

Egyptaland fékk að velja sér riðil þar sem liðið er gestgjafi mótsins. Egyptar völdu að vera í riðli með Svíum, Tékkum og fjórða fulltrúa Suður-Ameríku á mótinu.