Íslenska liðið er í H-riðli keppninnar með Rússlandi, Hollandi og Ítalíu. Fyrirfram er Ísland veikasta liðið í riðlinum en hin þrjú eru á meðal bestu þjóða í Evrópu. Þrjú efstu lið riðilsins komast áfram í aðra umferð undankeppninnar.

Liðið hefur verið við æfingar í Amsterdam undanfarna daga og verður gaman að sjá hvernig liðið mætir stemmt til leiks í kvöld.

Allra augu verða á Martini Hermannssyni sem er mættur aftur í íslenska landsliðið. Martin er besti körfuboltamaður Íslands um þessar mundir og lék síðast með landsliðinu í ágúst árið 2019.

Ísland leikur tvo leiki í þessum landsleikjaglugga. Seinni leikur liðsins er gegn Rússlandi á mánudaginn næstkomandi.

Í samtali við RÚV á dögunum segir Craig Pedersen, landsliðsþjálfari Íslands að markmiðið sé að enda í einu af þremur efstu sætum riðilsins. „Auðvitað þurfum við að spila vel og að hafa nokkra leikmenn á háu getustigi. Þetta eru góð lið. Holland hefur unnið, í síðasta landsliðsglugga unnu þeir Króatíu og Tyrkland, tvær gríðarsterkar þjóðir í evrópskum körfubolta. Þannig að þeir eru að spila af mikilli getu og hafa gert það undanfarin ár,“ sagði Craig Pedersen í samtali við RÚV.