Svíþjóð hafði betur, 2-0, þegar liðið fékk Ísland í heimsókn á Gamla Ullevi í Gautaborg í undankeppni EM 2022 í knattspyrnu kvenna í kvöld. Mörk sænska liðsins komu í sitt hvorum hálfleiknum.

Það var Sofia Jakobsson sem skoraði fyrra mark sænska liðsins á 25. mínútu leiksins. Sofia fékk þá boltann eftir misheppnaða hreinsun hjá Glódísi Perlu Viggósdóttur. Svíþjóð var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en það var Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem fékk besta færi Íslands í fyrri hálfleiknum.

Hlín Eiríksdótttir komst einnig í góða fyrirgjafarstöðu en Elín Metta Jensen og Sveindís Jane Jóndsóttir náðu ekki að færa sér fyrirgjöf Hlínar í nyt.

Karólína Lea átti svo fyrsta skot Íslands í seinni hálfleiknum en boltinn barst til hennar eftir góðan sprett hjá Sveindísi Jane. Skot Karólínu var fór hins vegar töluvert langt framhjá sænska markinu.

Eftir tæplega tíu mínútna leik í seinni hálfleik tvöfaldaði Olivia Schough forystu Svía. Þrátt fyrir að vera meira með boltann í leiknum sköpuðu Svíar þó ekki mörg opin marktækifæri fyrir utan þau sem urðu að mörkunum sem skildu liðin að.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem kom inná sem varamaður um miðjan seinni hálfleik fékk fína fyrirgjöf frá Sveindísi Jane undir lok leiksins en Berglind Björg náði ekki góðu skoti. Sveindís Jane tók boltann á lofti skömmu síðar og náði föstu skoti sem Jennifer Falck varði vel. Agla María Albertsdóttir sem kom einnig inná af varamannabekknum átti síðustu marktilraun Íslands í uppbótartíma leiksins.

Niðurstaðan sanngjarn 2-0 sigur Svíþjóðar sem hefur nánast tryggt sér farseðilinn í lokakeppni mótsins sem fram fer í Englandi næsta sumar.

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað: Mark: Sandra Sigurðardóttir. Vörn: Hallbera Guðný Gísladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. Miðja: Sara Björk Gunnarsdóttir (f), Alexandra Jóhannsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Agla María Albertsdóttir). Sókn: Sveindís Jane Jónsdóttir, Elín Metta Jensen (Hólmfríður Magnúsdóttir), Hlín Eiríksdóttir (Berglind Björg Þorvaldsdóttir).

Svíþjóð trónir á toppi riðilsins með 19 stig eftir sjö leiki en Ísland er í öðru sæti með 13 stig eftir sex leiki. Íslenska liðið á tvo leiki eftir í riðlinum gegn Slóvakíu og Ungverjalandi sem fram fara á útivelli um næstu mánaðamót. Þau þrjú lið með bestan árangur í öðru sæti í riðlunum níu í undankeppninni fara beint í lokakeppnina.

Eins og staðan er núna er Ísland í fimmta sæti af þeim liðum sem sitja í öðru sæti í riðlunum en, Belgía er efst með 18 stig og Austurríki og Ítalía koma þar á eftir með 15 stig hvort lið. Spánn og Írland eru svo með 13 stig líkt og íslenska liðið.

Olivia Schough sendir hér boltann fyrir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er til varnar.
Mynd/EPA