Ísland er á leiðinni í lokakeppni Evrópumótsins í handbolta karla en þetta varð ljóst eftir 32-22 sigur liðsins á móti Tyrklandi í lokaumferð í undankeppni mótsins í Laugardalshöllinni í dag.

Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og leikmenn liðsins voru greinilega staðráðnir í að bæta fyrir slaka frammistöðu gegn Grikklandi í síðustu umferð undankeppninnar.

Staðan var 4-0 Íslandi í vil þegar skammt var liðið af leiknum. Þá tóku Tyrkir sig taki og minnkuðu muninn í 7-5. Þegar fyrri hálfleik lauk hafði Ísland 12-9 forystu.

Ísland seig hægt og rólega fram úr í seinni hálfleiknum og fór að lokum með 10 marka sigur af hólmi.

Vörn íslenska liðsins var góð í leiknum og Viktor Gísli Hallgrímsson varði vel í íslenska markinu. Viktor Gísli varði hátt í 20 skot í leiknum. Hraðaupphlaupin voru síðan betur útfærð í þessum leik en í Grikklandi og færanýtingin betri.

Stórkostleg innkoma hjá Bjarka Má í hálfleik

Bjarki Már Elísson sem lék einungis seinni hálfleikinn í vinstra horninu var markahæstur hjá íslenska liðinu með 11 mörk.

Arnór Þór Gunnarsson sem lék allan fyrri hálfleikinn og svo lítið í seinni hálfleik hægra megin í horninu kom næstur með sex mörk.

Aron Pálmarsson og Teitur Örn Einarsson komu þar á eftir með þrjú mörk hvor og Elvar Örn Jónsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Janus Daði Smárason skoruðu tvö mörk hver.

Atli Ævar Ingólfsson sem kom inn í hópinn í stað Arnars Freys Arnarssonar í þessum leik bætti svo einu marki við í sarpinn.

Ísland endaði í öðru sæti riðilsins með átta stig og mun því mæta á Evrópumótið 11. skiptið í röð í upphafi næsta árs.