Íslenska karlalandsliðið í körfubolta laut í lægra haldi, 83-69, þegar liðið mætti Svartfjallalandi í fyrstu umferð á seinna stigi í forkeppni fyrir undankeppni HM 2023 í Podgorica í kvöld.

Íslenska liðinu gekk illa að skora í upphafi leiks og leikmenn liðsins skoruðu einungis átta stig í fyrsta leikhluta. Staðan var 16-8 Svartfjallalandi í vil þegar annar leikhluti hófst.

Þar var sóknarleikurinn mun betri og Ísland náði að minna forskot Svartfellinga um tvö stig í öðrum leikhluta. Heimamenn fór með 39-33 forystu inn í hálfleikinn.

Ísland hóf svo þriðja leikhluta vel og Ólafur Ólafur Ólafsson jafnaði metin í 47-47 upphafi leikhlutans. Kári Jónsson jafnaði svo aftur 50-50 og leikurinn var í járnum fram að fjórða leikhluta.

Svartfjallaland var svo sterkari aðilinn í lokafjórðungnum og fór að lokum með 14 stiga sigur af hólmi.

Elvar Már Friðriksson var stigahæstur hjá Íslandi með 16 stig en hann gaf þar að auki fjórar stoðsendingar. Kári Jónsson kom næstur með níu stig og Hörður Axel Vilhjálmsson, Kristófer Acox, Tryggvi Snær Hlinason skoruðu átta stig hver.

Sigtryggur Arnar Björnsson skilaði svo sex stigum á töfluna og Ægir Þór Steinarsson fimm.

Íslenska liðið mætir Danmörku í næstu umferð forkeppninnar á morgun. Liðin í þessum þriggja liða riðli mætast tvisvar sinnum og tvö efstu liðin fara í næsta stig undankeppninnar.