Eftir fund sinn á dögunum kynnti Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, breytingar á Þjóðadeildinni, sem og undankeppnum Heims- og Evrópumótsins. Mun ein umferð bætast við Þjóðadeildina á milli riðlakeppninnar og undanúrslita. Leikið verður í átta liða úrslitum, sem og í umspili um það að komast upp um deild og að sleppa við fall.

Í þessu fyrirkomulagi munu sigurvegarar riðla sinna í A-deild mæta þeim liðum sem hafna í öðru sæti í átta-liða úrslitum, þar sem leikið verður heima og að heiman. Fara þessir leikir fram annað hvert ár, þegar ekki er leikið í lokakeppni HM eða EM. Þá munu liðin í þriðja sæti í A-deild og öðru sæti í B-deild mætast í umspili, þar sem barist verður um að halda sæti sínu í A-deild eða komast upp í hana. Það sama verður upp á teningnum með liðin sem hafna í þriðja sæti í Bdeild og öðru sæti í C-deild. Ísland mun leika í B-deild Þjóðadeildarinnar sem hefst haustið 2024. Hafni Ísland í öðru eða þriðja sæti er því ljóst að umspilsleikir bíða, heima og að heiman, í mars.

Virkilega kostnaðarsamt

Breytingarnar munu taka gildi í september á næsta ári og verða því fyrstu mars-leikir Þjóðadeildarinnar spilaðir 2025. Eftir það munu slíkir leikir fara fram í mars annað hvert ár. Að því sögðu er möguleiki á að Ísland muni leika í umspili um sæti á Evrópumótinu 2024 strax í mars á næsta ári.

Á móti fjölgun leikja í Þjóðadeildinni verður leikjum fækkað í undankeppnunum. Þar verður riðlum fjölgað og færri lið leika í hverjum riðli fyrir sig. Aðeins verða fjögur til fimm lið í riðli og því leiknir sex til átta leikir. Til samanburðar er Ísland í sex liða riðli fyrir undankeppni EM 2024 og leikur því tíu leiki.

Fréttablaðið leitaði til Ómars Smárasonar, deildarstjóra samskiptadeildar KSÍ, og spurði út í það hvað hugsanlegir leikir karlalandsliðsins í mars þýði fyrir liðið og sambandið. „Þetta hefur auðvitað mikla þýðingu fyrir KSÍ, skipulagslega og fjárhagslega, og ekki síður íþróttalega fyrir A-landslið karla,“ segir Ómar í svari við fyrirspurn.

Ómar vísar í undirbúning fyrir umspilsleik Íslands og Rúmeníu í mars 2020. Sá leikur fór að vísu aldrei fram vegna faraldursins sem skall á. Undirbúningurinn var hins vegar ansi kostnaðarsamur þar sem rándýr hitadúkur, gjarnan talað um hitapylsu, var lagður yfir völlinn. „Þetta getur kostað miklar fjárhæðir, marga tugi milljóna, að gera völlinn leikhæfan í mars. Það er ekkert hitakerfi í keppnisfletinum og Laugardalsvöllur er opinn leikvangur með lítið skjól fyrir veðri og vindum. Vinnustundirnar sem fóru í það verkefni og kostnaðurinn við að fá pulsuna góðu og hitakerfið með henni hingað til lands til að reyna að gera völlinn leikhæfan, það er eitt.“

Ómar Smárason
Fréttablaðið/Eyþór

Grafalvarleg staða

En er hitapylsan eina leiðin til að halda vellinum góðum í mars? „Það get ég ekki sagt til um. Það er örugglega hægt að fara f leiri leiðir, en það verður alltaf gríðarlegur kostnaður.“ Ómar segir einnig mikilvægt að veita landsliðsfólki Íslands sem bestar aðstæður til að iðka sína íþrótt. „Svo er það hið raunverulega markmið í þessu öllu, sem er að ná íþróttalegum árangri, komast áfram í keppninni. Það er mikill metnaður fyrir árangri í íþróttum á Íslandi, í flestum eða öllum greinum, og til þess að það sé hægt þá þarf að skapa afreksíþróttafólkinu okkar sem bestar aðstæður og umgjörð. Laugardalsvöllur í mars eru klárlega ekki kjöraðstæður eins og völlurinn er í dag og hefur verið um áratugaskeið.“

Það gæti farið svo að Ísland þyrfti að leika heimaleik á erlendri grundu með nýju fyrirkomulagi. Ýtir það enn frekar undir þörfina fyrir nýjan Þjóðarleikvang. „Staðan er bara raunverulega sú að ef við getum ekki tryggt að þjóðarleikvangurinn okkar verði leikhæfur á þessum tíma, þá verðum við að skoða aðrar lausnir, möguleikann á að leika annars staðar. Færeyjar, Kaupmannahöfn, einhver nefndi Tene, því það er alltaf fullt af Íslendingum þar,“ grínast Ómar. „En að öllu gamni slepptu þá er þetta grafalvarleg staða.“