Ísland bar sigur úr býtum gegn Slóvakíu, 3-1, þegar liðin leiddu saman hesta sína í undankeppni EM 2022 í Bratislava í kvöld. Spilamennska leikmanna Íslands var eins og svart og hvítt í fyrri og seinni hálfleik í þessum leik sem var liður í næstsíðustu umferð riðlakeppninnar.

Sigurinn tryggir íslenska liðinu annað sætið í riðlinum úrslit leikja í lokaumferð undankeppninnar leiðir það í ljós hvort Ísland fer í umspil eða beint í lokakeppni Evrópumótsins.

Mária Mikolajová kom heimakonum yfir eftir 25 mínútna leik. Mikolajová fékk þá boltann rétt fyrir utan vítateig Íslands, fékk að skjóta óáreitt og hnitmiðað skot hennar fór framhjá Söndru Sigurðardóttur.

Lítið gekk að skapa færi í fyrri hálfleik

Mikolajová hélt áfram að ógna íslenska markinu eftir mark sitt en hún komst aftur í gott skotfæri skömmu eftir að hún kom slóvakíska liðinu yfir. Í það skiptið fór boltinn sem betur fer hársbreidd framhjá íslenska markinu. Elín Metta Jensen var svo nálægt því að jafna metin eftir hornspyrnu frá Hallberu Guðnýjar Gísladóttur eftir að Slóvakar komust yfir.

Sóknarleikur íslenska liðsins var bitlaus allt þar til að líf færðist í leik liðsins undir lok fyrri hálfleiks. Ingibjörg Sigurðardóttir átti þá góðan skalla eftir langt innkast Sveindísar Jane Jónsdóttur og Berglind Björg Þorvaldsdóttir náði ekki að koma skoti að marki í upplögðu marktækifæri eftir fyrirgjöf Hallberu Guðnýjar.

Uppspil íslenska liðsins gekk hins vegar illa í fyrri hálfleik og leikmenn liðsins náðu ekki að komast í góð færi í opnum leik. Hallbera Guðný komst sjaldan í stöðu til þess að senda boltann fyrir og kantmennirnir, Sveindís Jane og Agla María Albertsdóttir, komust ekki í takt við leikinn.

Jón Þór Hauksson náði að kveikja neista í hálfleik

Það var hins vegar allt annað að sjá til leikmanna íslenska liðsins í upphafi seinni hálfleiks. Pressa íslenska liðsins var mun ákafari og allt annað að sjá sendingar milli leikmanna í sóknaraðgerðum liðsins. Agla María minnti á sig með góðu skoti strax á upphafsmínútum seinni hálfleiksins sem fór rétt framhjá marki Slóvaka. Áhlaup íslenska liðsins var hins vegar truflað þegar rafmagnið sló út á vellinum í Bratislava.

Það tók íslensku leikmennina nokkrar mínútur að komast í gírinn á nýjan leik en það tókst svo sannarlega. Berglind Björg jafnaði metin þegar rúmur klukkutími var liðinn af leiknum. Sveindís Jane fann þá Öglu Maríu sem renndi boltanum á Berglindi Björgu sem var réttur maður á réttum stað og kláraði færið af stakri prýði.

Sex mínútum síðar nældi Sara Björk Gunnnarsdóttir svo í vítaspyrnu. Sara Björk fór sjálf á vítapunktinn en brást bogalistinn. Dómarar leiksins komu hins vegar fyrirliðanum til bjargar þar sem þær gáfu henni annan sjéns þar sem Mária Korenčiová steig af línunni áður en hún varði vítið. Sara Björk skilaði boltanum rétta leið í seinna skiptið.

Elín Metta var svo felld í vítateig Slóvaka rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok. Sara Björk tók sína þriðju vítaspyrnu í leiknum og var öryggið uppmálað að þessu sinni. Góður seinni hálfleikur Íslands tryggði liðinu stigin þrjú.

Ísland mætir Ungverjalandi í lokaumferðinni

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað: Mark: Sandra Sigurðardóttir. Vörn: Hallbera Guðný Gísladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir. Miðja: Sveindís Jane Jónsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir (f), Alexandra Jóhannsdóttir, Agla María Albertsdóttir (Svava Rós Guðmundsdóttir). Sókn: Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Elín Metta Jensen.

Eftir þennan sigur er Ísland öruggt með að hafna í öðru sæti riðilsins en liðið hefur 16 stig og hefur sex stiga forskot á Slóvakíu fyrir lokaumferðina í riðlinum.

Ísland mætir Ungverjandi í Búdapest í lokaumferðinni á þriðjudaginn. Úrslit í þeim leik og leikjum í öðrum riðlum skera úr um hvort íslenska liðið fer beint í lokakeppni EM með einn af þremur bestu árangrunum af þeim liðum sem enda í öðru sæti í riðlunum níu eða í umspil með hinum liðunum sex sem lenda í öðru sæti.