Ísland eignaðist fjórða fulltrúa sinn í MLS-deildinni í knattspyrnu á dögunum þegar hinn hálfíslenski Eythor Martin Bjørgolfsson var valinn með 38. valrétt í nýliðavalinu af Seattle Sounders.

Eythor sem er fæddur og uppalinn í Noregi lék með háskólaliði University of Kentucky og á að baki leiki í norsku annarri deildinni.

Í viðtali á heimasíðu knattspyrnuliðs Kentucky kom fram að Eythor ætti íslenskan pabba og norska móður og þótt að hann væri frá Noregi bæri hann íslenskt nafn.

„Nafnið mitt er íslenskt þar sem faðir minn er frá Íslandi en mamma frá Noregi. Ég hef búið í Noregi allt mitt líf en nafnið er íslenskt.“

Með því verður Eythor fjórði fulltrúi Íslands í MLS-deildinni en fyrir eru Guðlaugur Victor Pálsson hjá DC United, Þorleifur Úlfarsson hjá Houston Dynamo og Róbert Orri Þorkelsson hjá Montreal.