Íslensku landsliðin í knattspyrnu hafa eignast nýtt stuðningsfólk en um er að ræða krakkahóp frá Eþíópíu.

Fram kemur á vefsíðu SOS barnaþorpa að systkinin á einu heimilinu í þorpi samtakanna sem staðsett er í Addis Ababa hafi verið í skýjunum þegar fulltrúi SOS á Íslandi afhenti þeim að gjöf íslensku landsliðstreyjuna í vettvangsferð þangað í lok febrúar síðastliðnum.

Það var knattspyrnusamband Íslands sem gaf SOS barnaþorpum treyjurnar og starfsmenn samtakanna sáu síðan um það að koma þeim til skila á réttan stað.

Starfsfólk barnaþorpsins sagði að það sem gladdi börnin sérstaklega er hversu litrík og falleg treyjan er og að hún væri glæný og ekta. 29 Íslendingar eru SOS-styrktarforeldrar barna í barnaþorpinu í Addis Ababa.