Ísland féll úr leik í riðlakeppni Evrópumótsins í gær, þrátt fyrir að ná í 1-1 jafntefli gegn ógnarsterku liði Frakka. Ísland fór taplaust í gegnum riðilinn. Er þetta í fyrsta sinn sem taplaust lið dettur úr leik í riðlakeppni Evrópumóts.

Fyrr í riðlinum hafði Ísland gert 1-1 jafntefli við Belga og Ítali einnig. Liðið var mun betra gegn Belgum og reyndist það að lokum dýrt að nýta ekki færin í þeim leik.

Íslendingar geta þó huggað sig við það að stelpurnar okkar fóru taplausar í gegnum mótið.

Auk þess var íslenska liðið í gær að stöðva sextán leikja sigurgöngu Frakka. Það er mjög góður árangur gegn þessu landsliði, sem er með marga heimsklassa leikmenn innanborðs.