Ísland og Belgía eigast við í fjórðu umferð í 2. riðli í A-deild Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu karla á Laugardalsvellinum í kvöld.

Byrjunarlið íslenska liðsins er þannig skipað: Markmaður: Rúnar Alex Rúnarsson. Vörn: Ari Freyr Skúlason, Hörður Björgvin Magnússon, Hólmar Örn Eyjólsson, Sverrir Ingi Ingason, Birkir Már Sævarsson. Miðja: Guðlaugur Victor Pálsson, Birkir Bjarnason (f), Rúnar Már Sigurjónsson. Sókn: Albert Guðmundsson, Jón Daði Böðvarsson.

Birkir Bjarnason sem er að leika sinn 89. landsleik í kvöld leiðir hér íslenska liðið inná völlinn. Birkir er fyrir A-landsliðsins í fyrsta skipti. Romelu Lukaku er fyrirliði belgíska liðsins.

Hér að neðan verður greint frá helstu atvikum leiksins:

1.Leikurinn er hafinn. Það eru Belgar sem byrja með boltann.

3. Eins og við var að búast eru Belgar meira með boltann í upphafi leiks en engin færi hafa litið dagsins ljós í leiknum hingað til

6. Jón Daði Böðvarsson fellur eftir viðskipti við Jason Denayer en ekkert dæmt.

8. Leikmenn íslenska liðsins enn í skotgröfunum og Belgarnir eru þolinmóðir í leit sinni að glufu í íslenska varnarmúrnum

9. Belgar fá fyrstu hornspyrnu leiksins. Jón Daði Böðvarsson nær að koma boltanum frá hættusvæðinu.

10. MAAARK. Ísland - Belgía, 0-1. Romelu Lukaku kemur Belgum yfir. Lukaku fær boltann inni á vítateig íslenska liðsins, snýr á Hörð Björgvin Magnússon og Hólmar Örn Eyjólfsson og skorar með góðu skoti.

16. Fyrsta sókn íslenska liðsins í leiknum. Eftir fínt uppspil nær Albert Guðmundson að finna Birki Má Sævarsson í góðu hlaupi upp hægri vænginn. Belgar bjarga í horn. Ekkert verður úr hornspyrnunni.

17. MAAARK. Ísland - Belgía, 1-1. Birkir Már Sævarsson jafnar metin fyrir Ísland. Rúnar Már Sigurjónsson setur Birki Má í gegn og Birkir Már sem hefur verið iðinn við kolann í markaskorunn fyrir Val í sumar skorar sitt annað landsliðsmark í 93. landsleiknum sínum.

22. Aftur er íslenska liðið komið í það hlutverk að verjast en markið hefur hins vegar veitt liðinu meiri trú og kraft.

23. Belgar fá fyrst aukaspyrnu í fyrirgjafarstöðu og svo hornspyrnu.

24. Axel Witsel með skot rétt utan vítateigs Íslands en það fer yfir mark íslenska liðsins.

25. Ari Freyr Skúlason sendir boltann fyrir úr aukaspyrnu en Belgar bægja hættunni frá.

27. Youri Tielemans í fínu færi en skot hans fer í íslenskan varnarmann.

29. Jón Daði Böðvarsson gerir sig líklega hinum megin en skot hans fer sömuleiðis í varnarmann.

31. Toby Alderweireld freistar gæfunnar af löngu færi en hittir ekki íslenska markið.

33. Romelu Lukaku skallar boltann í góðu færi en Rúnar Alex Rúnarsson ver. Lukaku var flaggaður rangstæður.

35. Birkir Már Sævarsson heldur áfram að ógna með hraða og vinnur hornspyrnu. Ari Freyr Skúlason tekur góða hornspyrnu og Hólmar Örn Eyjólfsson kallar eftir víti eftir viðskipti sín við belgískan varnarmann. Ekkert dæmt hins vegar.

37. Hólmar Örn Eyjólfsson fellir Romelu Lukaku og vítaspyrna dæmd.

38. MAAARK. Ísland - Belgía, 1-2. Romelu Lukaku skorar af feykilegu öryggi úr vítaspyrnunni en Rúnar Alex Rúnarsson fór í rangt horn.

40. Sverrir Ingi Ingason bjargar í horn áður en Romelu Lukaku kemst í boltann í fínu færi eftir góða fyrirgjöf Thomas Meunier. Ekkert verður úr horninu.

44. Belgar fá horn sem þeir spila stutt úr. Boltinn endar hjá Birki Má Sævarssyni sem hefur íslenska sókn sem rennur reyndar fljótlega út í sandinn.

45. Hálfleikur. Staðan er 2-1 fyrir Belgíu í hálfleik. Romelu Lukaku hefur skorað bæði mörk Belga en Birkir Már Sævarsson jafnaði metin fyrir Ísland.

47. Ísland fær hornspyrnu. Rúnar Már Sigurjónsson rann þegar hann tók hornspyrnuna en boltinn hrökk til Alberts Guðmundssonar sem á skot í varnarmann Belga. Ekkert verður úr seinni hornspyrnunni.

52. Ísland fær aukaspyrnu í fínu færi til þess að skjóta. Hörður Björgvin Magnússon tekur spyrnuna og setur boltann rétt framhjá belgíska markinu.

56. Jón Daði Böðvarsson liggur hér á vellinum og virðist hafa meiðst á hné. Svo virðist sem það sé í lagi með Jón Daða og hann heldur leik áfram.

58. Belgar fá hornspyrnu. Rúnar Alex Rúnarson grípur boltann þægilega og kemur boltanum hratt í leik.

60. Tólfan sem telur líkt og áður í þessum landsleikjaglugga 60 manns gerir sitt besta til þess að halda uppi stemmingu.

61. Skipting hjá Belgíu. Leandro Trossard fer af velli og Hans Vanaken kemur inná.

67. Nóg að gera hjá fjórða dómaranum þessa stundina. Þrjár skiptingar í vændum.

68. Timothy Castagne leysir Jérémy Doku af hólmi hjá belgíska liðinu.

68. Inná hjá íslenska liðinu koma Jón Dagur Þorsteinsson og Viðar Örn Kjartansson. Af velli fara Rúnar Már Sigurjónsson og Jón Daði Böðvarsson.

70. Rólegt yfir leiknum annars og hvorugt liðið að skapa sér afgerandi færi síðustu mínúturnar. Danir eru 1-0 yfir á móti Englandi í hinum leik riðilsins og eins og staðan er núna blasir fall í B-deildina við.

76. Belgar eru að herða tökin aftur og eru aðgangsharðir upp við mark íslenska liðsins. Ná hins vegar ekki að koma skoti á markið.

81. Aftur tvöföld skipting hjá Íslandi. Hjörtur Hermannsson og Kolbeinn Sigþórsson fylla skarð og Guðlaugs Victors Pálssonar Alberts Guðmundssonar.

82. Hörður Björgvin Magnússo er utan vallar eftir að hafa fengið högg á hnéð. Hörður Björgvin er búinn að jafna sig og kemur aftur inná.

85. Birkir Bjarnason nælir í aukapspyrnu nokkrum metrum utan vítateigs Belga og Axel Witsel er áminntur með gulu spjaldi.

86. Áður en aukaspyrnan er tekin fer Hörður Björgvin Magnússon af velli og Arnór Ingvi Traustason kemur inná

87. Ari Freyr Skúlason sendir boltann fyrir markið en Birkir Bjarnason nær ekki að komast í boltann og boltinn fer aftur fyrir endamörk.

88. Birkir Bjarnason liggur á vellinum eftir að hafa fengið högg á ökklann. Geti Birkir ekki klárað leikinn spilar Ísland síðustu mínúturnar einum leikmanni færri þar sem íslenska liðið er búið með sínar fimm skiptingar. Fyrirliðinn virðist ætla að klára leikinn.

90. Yannick Carrasco kemur sér í gott færi en hittir ekki markið.

90. Fjórum mínútum bætt við venjulegan leiktíma.

90. Ísland fær tvær hornspyrnur sem íslenska liðið nær ekki að nýta.

94. Leik lokið með 2-1 sigri Belga.