Íslenska karlalandsliðið i handbolta sýndi fagmannlega frammistöðu þegar liðið sótti Ísrael heim til Tel Aviv í undankeppni EM 2022 í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 30-20 fyrir Íslandi.

Ísland náði strax frumkvæðinu í leiknum og eftir tæplega stundarfjórðungs leik var staðan 10-3 íslenska liðinu í vil. Vel útfærður sóknarleikur, sterk vörn, góð markvarsla Viktors Arnar Hallgrímssonar og seinni bylgju hraðaupphlaup sköpuðu þægilegt forskot.

Staðan var 17-9 í hálfleik en í seinni hálfleik byrjaði Guðmundur Þórður Guðmundsson að rúlla íslenska liðinu. Viggó Kristjánsson kom sterkur inn í hægri skyttuna fyrir Ómar Inga Magnússon sem hafði skorað fimm mörk í fyrri hálfleik.

Gunnar Steinn Jónsson leysti Aron Pálmarsson af í vinstri skyttunni undir lok fyrri hálfleiks og Oddur Gretarsson kom inn í vinstra hornið fyrir Bjarka Má Elísson.

Staðan vænleg fyrir lokaleikina tvo

Daníel Þór Ingason og Sveinn Jóhansson léku í hjarta varnarinnar í seinni hálfleik eftir að Arnar Freyr Arnarsson og Ýmir Örn Gíslason höfðu skilað góðu dagsverki í þeim fyrri.

Þá fengu Tandri Már Konráðsson og Teitur Örn Einarsson tækifæri í skyttustöðunum undir lok leiksins líkt og Ágúst Elí Björgvinsson í markinu.

Forystan var í kringum tíu mörkin til loka leiksins og niðurstaðan tíu marka sigur íslenska liðsins. Ísland heldur nú til Vilnisu þar sem liðið mætir Litáen á fimmtudagskvöldið.

Íslenska liðið leikur svo við Ísrael að Ásvöllum á sunnudaginn kemur í lokaumferð undankeppninnar. Fari Ísland með sigur af hólmi í þessum tveimur leikjum endar það í toppsæti riðilsins.

Mörk Íslands í leiknum: Elvar Örn Jónsson 5, Ómar Ingi Magnússon 5, Viggó Kristjánsson 5, Sigvaldi Björn Guðjónsson 4, Aron Pálmarsson 3, Bjarki Már Elísson 3, Tandri Már Konráðsson 1, Oddur Grétarsson 1, Sveinn Jóhannsson 1, Teitur Örn Einarsson, Arnar Freyr Arnarsson 1.

Varin skot hjá Íslandi: Viktor Gísli Hallgrímsson 10 og Ágúst Elí Björgvinsson 8.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði vel í leiknum.
Markvarðarparið stóð fyrir sínum að þessu sinni.
Aron Pálmarsson lék vel í tímamótaleik fyrir íslenska liðið.
Elvar Örn Jónsson lék vel á báðum endum vallarins og innkoma Odds Grétarssonar var fín.
Ómar Ingi Magnússon nýtti öll fjögur vítin sem hann tók.
Skotnýting Sigvalda Björns Guðjónssonar var afar góð.
Samvinna Arnars Freys Arnarssonar og Ýmis Arnar Gíslasonar var góð að vanda.
Varnarleikur íslenska liðsins var öflugur.
Daníel Þór Ingason átti góða innkomu inn í hjarta varnarinnar.
Sveinn Jóhannsson og Tandri Már Konráðsson áttu flotta frammistöðu.
Gunnar Steinn Jónsson skilaði sínu hlutverki í leikstjórnendastöðunni með stakri prýði.
Guðmundur Þórður Guðmundsson getur verið ánægður með lærisveina sína.