„Þetta er ótrúlega mikilvægur leikur. Við erum án stiga og Tékkar eru með fjögur stig. Auðvitað er margt sem getur gerst, sama hver úrslitin verða í þessum leik en hvert stig skiptir miklu máli ef við ætlum okkur á HM. Ég tala nú ekki um ef við ætlum okkur að ná í efsta sæti riðilsins,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi landsliðsins í gær þegar hún var spurð út í mikilvægi leiks Íslands og Tékklands í kvöld.

Stelpurnar hafa um leið einhvers að hefna eftir að jafntefli í síðustu viðureign liðanna gerði út um HM-vonir íslenska liðsins.

„Við vorum nálægt því að komast áfram í lokakeppnina í síðustu undankeppni. Þar byrjuðum við vel og eftir að hafa séð stemminguna í kringum Heimsmeistaramótið þegar karlalandsliðið fór árið 2018 viljum við ná sama árangri,“ sagði Dagný enn fremur, spurð hvaða þýðingu það hefði að komast á HM í fyrsta sinn.

Líklegt er að það falli Íslandi og Tékklandi í skaut að berjast um annað sætið í riðlakeppninni sem veitir þátttökurétt í umspilinu. Evrópumeistarar Hollands eru líklegir til að taka efsta sætið en Tékkar eru þegar búnir að fá stig gegn Hollendingum sem gæti reynst þeim drjúgt. Íslenska liðið má því ekki við að missa Tékkana lengra fram úr sér.

Sagan er hins vegar Íslandi ekki hliðholl. Íslenska kvennalandsliðinu hefur aldrei tekist að vinna Tékkland í fjórum tilraunum til þessa. Tveimur leikjum hefur lokið með jafntefli og tveimur með tékkneskum sigri. Leikir liðanna í undankeppni HM 2019 enduðu báðir með jafntefli, sá síðari gerði út um vonir Íslands um að komast í umspilið fyrir HM.

Tékkland er eitt af þremur löndum innan evrópska knattspyrnusambandsins sem íslenska kvennalandsliðið hefur mætt en ekki unnið leik gegn ásamt Austurríki og Rússlandi.Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, telur liðið vel búið undir að reyna að sækja á Tékkana á réttum stöðum enda líði tékkneska liðinu vel án bolta.

„Við þurfum að pressa þær á réttum stöðum og réttum tímum þegar komið er á ákveðin svæði vallarins og við höfum farið vel yfir það. Þetta er gott lið og á einhverjum tímapunkti munu þær vera meira með boltann,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundinum og hélt áfram:

„Það hefur sami þjálfari verið með liðið í langan tíma og þær sýndu það gegn Hollendingum að það er mikið spunnið í þetta lið. Þar tókst þeim að kreista út jafn­tefli þótt þær hafi varla farið yfir miðju í seinni hálfleik. Þær vörðust vel og voru þéttar og sýndu að þeim líður vel að verjast. Það er erfitt að brjóta þær aftur enda eru þær með líkamlega sterkt lið og það skiptir öllu máli að lenda ekki undir.“