Strákarnir okkar í handboltalandsliðinu unnu öruggan 34-26 sigur á Austurríki í dag og tryggðu sér með því sæti á HM sem fer fram í Póllandi og Svíþjóð á næsta ári.

Ísland vann fyrri leik liðanna með fjórum mörkum ytra á dögunum og unnu því einvígið samanlagt 68-56.

Handboltalandsliðið verður því meðal þátttökuþjóða á HM í 22. sinn og sjöunda skiptið í röð.

Austurríska liðið byrjaði leikinn af krafti á Ásvöllum og var með frumkvæðið framan af í fyrri hálfleik. Munurinn fór mest í tvö mörk um miðbik fyrri hálfleiks en þá settu Strákarnir okkar í gír og náðu stjórn á leiknum fyrir lok hálfleiksins.

Munurinn var fjögur mörk, 19-15, Íslandi í vil, í hálfleik og hleypti Ísland gestunum aldrei inn í leikinn eftir það. Munurinn var fljótlega kominn í átta mörk og fór mest í níu mörk.

Bjarki Már Elísson var annan leikinn í röð markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk en Aron Pálmarsson bætti við sjö mörkum í heimabæ sínum.